Hlúð að böngsum á bangsaspítalanum

Það er ávallt tekið vel á móti böngsum á bangsaspítalanum. …
Það er ávallt tekið vel á móti böngsum á bangsaspítalanum. Myndin var tekin á Landspítalanum á síðasta ári. mbl.is/Kristinn

Alþjóðlegi bangsadagurinn er í dag og af því tilefni bauð Lýðheilsufélag læknanema við Háskóla Íslands börnum á nokkrum leikskólum á Akureyri að koma með bangsana sína í heimsókn á göngudeild Sjúkrahússins á Akureyri.

Á vef FSA segir að það hafi verið mikið líf og fjör á bangaspítalanum. Um 100 börn komu með veika bangsa sem þjáðust af hinum ýmsu kvillum. Þá segir að áhugi hafi skinið úr hverju andliti og bangsarnir hafi flestir fengið bót meina sinna. 

Lýðheilsufélag læknanema mun svo opna bangsaspítalann næstkomandi laugardag í Reykjavík. Öllum börnum á aldrinum 3 til 6 ára er þá velkomið að koma með bangsana sína og dúkkur í læknisskoðun.

Bangsaspítalinn verður opinn milli kl. 10 og 16 og tekið verður á móti böngsum og dúkkum við sérmerkta biðstofu við inngang Barnaspítala Hringsins.

Markmið Bangsaspítalans er að stuðla að jákvæðu viðhorfi barna og trausti gagnvart heilbrigðisstarfsfólki, heilbrigðisstofnunum og því starfi sem þar fer fram.

Allir eru velkomnir í Bangsaspítalann og er heimsóknin auðvitað ókeypis. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert