Sjúkrahúsin þurftu uppskurð

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. mbl.is/Helgi Bjarnason

„Við munum ekki reka mörg fullbúin sérgreinasjúkrahús á Íslandi,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra á borgarafundi í Stapanum í kvöld en þar lýsti hann yfir þeirri skoðun sinni að löngu hefði verið kominn tími á uppstokkun í heilbrigðiskerfinu.

„Það eru ýmsir hlutir sem hafa farið fram úr böndunum,“ sagði ráðherrann og benti á að á Íslandi ætti að vera hálf en ekki fimm miðstöðvar fyrir leysiaðgerðir fyrir augu, ef sama hlutfall væri hér á íbúa og á Norðurlöndum.

„Skipulagsveira“ væri í heilbrigðiskerfinu sem þyrfti að uppræta.

„Það verður engin velferð á Íslandi ef ríkið fer á hausinn.“

Ríkið tekur enga áhættu

Hann svaraði afdráttarlaust fyrirpurn úr sal um afstöðu sína til einkasjúkrahúss á gamla herstöðvarsvæðinu. 

„Ríkið ætlar ekki að fara að reka sjúkrahús þarna. Það er alveg á hreinu [...] Ríkið er hins vegar að reyna að koma þessu húsnæði í not og það þarf að leggja út í ákveðinn kostnað til að koma því í leiguhæft ástand... Ríkið ætlar ekki að taka áhættu eða leggja fé í þennan rekstur sem slíkan, sagði Steingrímur.

Eyjólfur Eysteinsson, formaður Félags eldri borgara á Suðurnesjum, rifjaði upp að hann hefði setið í samstarfsnefnd um framtíð Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Hann spurði Steingrím hvort verjandi væri að ríkið leggi fram fjármuni í einkarekið sjúkrahús á Keflavíkurflugvelli, á sama tíma og verið væri að leggja niður sjúkradeildina á stofnuninni, til að mæta þeirri kröfu að skorið skyldi niður í rekstrinum um 400 milljónir króna á næsta ári.

„Styður ráðherra alfarið tillögu fv. heilbrigðisráðherra Álfheiðar Ingadóttur [í málinu]? Ætlarðu að stuðla að einkareknum sjúkrahúsum víðar?“ spurði Eyjólfur ráðherrann.

Viðurkennir að sparnaður er lítill

Annar fundarmaður spurði ráðherrann hversu mikill sparnaður hlytist af því að segja upp hjúkrunarfræðingi við stofnunina. Dæmigerð meðallaun væru um 300.000 krónur og bar fundarmaður það saman við atvinnuleysisbætur. Ljóst væri að neysla umrædds starfsmanns myndi minnka mikið við það að fara á atvinnuleysisbætur. Því mætti efast um að sparnaðurinn fyrir ríkið væri mikill.

Tók Steingrímur svo undir þetta sjónarmið en hann sagði ekki gripið til uppsagna nema talið væri óhjákvæmilegt að fækka fólki og ómögulegt að finna því störf við hæfi annars staðar. 

Katrín Guðmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur hjá HSS, krafði Steingrím svara hvers vegna Suðurnesin væru neðst á listum þegar útgjöld til velferðarmála eru annars vegar „Erum við annars flokks þegnar?“ spurði Katrín og uppskar dynjandi lófatak.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka