Færri ungar stúlkur í fóstureyðingu

Árið 2009 gengust 140 stúlkur 19 ára og yngri undir fóstureyðingu á landinu. Hafa þær ekki verið færri í þessum aldurshópi síðan árið 1991.

Árið 2009 var framkvæmd 971 fóstureyðing hjá konum með lögheimili á Íslandi sem eru heldur fleiri fóstureyðingar en undanfarin ár. Þetta kemur fram í tölum frá landlækni. Meðalfjöldi fóstureyðinga undanfarinn áratug hefur verið um 930, en þær voru fæstar árið 2005 (868) og flestar árið 2000 (987). Þrátt fyrir fjölgun fóstureyðinga miðað við árin á undan er rétt að hafa í huga að árið 2009 var metár í fæðingum. Sé litið til fjölda fóstureyðinga miðað við hverjar 1.000 fæðingar má merkja svolitla fækkun.

Fóstureyðingum í yngstu aldurshópunum hefur farið heldur fækkandi undanfarin ár. Árið 2009 gengust 140 stúlkur 19 ára og yngri undir fóstureyðingu á landinu en þær hafa ekki verið færri í þessum aldurshópi síðan árið 1991. Á hinn bóginn hefur fóstureyðingum meðal kvenna fjörutíu ára og eldri fjölgað undanfarin tvö ár, en tæplega 7% allra fóstureyðinga sem framkvæmdar voru í fyrra voru hjá konum í þessum aldurshópi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert