Tækifæri sem ekki má vanrækja

Michael Porter í Háskólabíói
Michael Porter í Háskólabíói Árni Sæberg

„Ef Íslendingar geta ekki nýtt þessi tækifæri í jarðvarmaorku ættu þeir að skammast sín.“ Þetta sagði Michael Porter, prófessor við Harvard Business School, á ráðstefnu um jarðvarmaorku í Háskólabíói í dag. Sagði hann Ísland hafa alla möguleika á að verða stór þátttakandi á þeim markaði í framtíðinni.

Sagði Porter að nú væri mikilvægt að menn byrjuðu að huga að framtíðinni og samkeppnisfærni landsins. Ekki væri endalaust hægt að leita að sökudólgum í tengslum við efnahagshrunið og líta þyrfti fram á veginn. Íslendingar hefðu verið duglegir við að vorkenna sjálfum sér en kreppan hér væri alls ekki sú versta í sögunni. Merki væri nú um að sæi fyrir enda kreppunnar. 

Sagði hann Íslendinga þurfa að finna leiðir til að fá meiri virðisauka úr jarðvarmavinnslu sinni og að selja þekkingu sína og tækni erlendis, ekki aðeins orkuna. Í framtíðinni hefðu Íslendingar alla möguleika á að eiga og reka jarðvarmafyrirtæki um allan heim. Í útflutningi á þekkingu hefðu tæknilegir ráðgjafar frá Íslandi gefið besta raun og þau verkefni sem byggst hafa á sérhæfðri þekkingu Íslendinga eins og á hitun húsa hafi gengið best.

Porter sagði Ísland eiga fjölda afar reyndra sérfræðinga á sviði jarðvarmaorku með góð sambönd erlendis. Það væri lykill að því að gera þekkingu á því sviði að útflutningsvöru. Þá sagði hann að það að fá fólk til að mennta sig á Íslandi í jarðvarmafræðum væri grundvallaratriði í markaðssetningu sérþekkingar Íslendinga í þeim efnum. Ísland bjóði upp á töluverðan fjölda menntastofnanna sem kenna á sviði jarðvarmaorku miðað við það sem gengur og gerist erlendis. Gæti það jafnvel verið galli þar sem kraftarnir væru of dreifðir.

Útflutningur orku til Evrópu er ekki raunhæfur kostur eins og er að mati Porters. Í framtíðinni gætu þó tækniframfarir breytt þeirri stöðu en útflutningur orku ætti í það minnsta ekki að vera skammtímamarkmið íslensk orkuiðnaðar.

Klasar lykilatriði
Sagði hann mikilvægt að huga að klösum í vinnslu jarðvarmaorku á Íslandi. Þar væri átt við öll þau fyrirtæki og stofnanir, allt frá orkufyrirtækjum til fjármálastofnanna, sem kæmi að vinnslu jarðvarmaorku. Jákvæð ytri áhrif alls klasans fyrir samfélagið væru mun meiri en hverrar einingar fyrir sig og því væri mikilvægt að hugsa um iðnaðinn út frá klösum. Á þann hátt væri hægt að auka framleiðni, hraða þróun og hvetja til stofnunnar nýrra fyrirtækja í greininni.

Sagði hann stjórnvöld ættu að styðja við bakið á jarðvarmaklasanum á Íslandi og fara að ráðleggingum hans. Þau ættu hins vegar ekki að niðurgreiða starfsemi fyrirtækjanna eða trufla samkeppni á annan hátt með að veita ákveðnum fyrirtækjum sérmeðferð. Einkafyrirtæki verði að vera í fararbroddi með stuðningi ríkisins og stjórnvöld megi ekki hægja á þróun á þessum markaði.

Meta þarf heildarvirðisauka orkufreks iðnaðar

Sagði hann nenn verða að velta fyrir sér hvort álvinnsla væri sá iðnaður sem skilaði Íslendingum mestu fyrir jarðvarmaorku sína. Álvinnsla væri ágæt og noti mikið af orku en menn yrðu að spyrja sig hvort hægt væri að gera betur.

Ísland ætti fyrir góð fyrirtæki í tölvu- og hugbúnaðargeiranum. Þannig gætu gagnaver verið hentugri orkufrekur iðnaður til þess að selja innlenda jarðvarmaorku. Vega þyrfti heildarvirðisauka sem Íslendingar gætu fengið úr þeim iðnaði sem þeir selja orku sína.  

Michael Porter í Háskólabíói
Michael Porter í Háskólabíói Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert