Trúmál ekki í enn einn stýrihópinn

Biblían
Biblían

Ekki er ástæða til að mynda enn annan stýrihópinn um samstarf kirkju og skóla og hefja nýtt samráðsferli um málefnið, að mati fulltrúa Samfylkingar, Besta flokks og Vinstri grænna í mannréttindaráði Reykjavíkurborgar. Fundað var um málið í dag, en fulltrúar Sjálfstæðisflokks höfðu lagt til að stýrihópur yrði skipaður um málið.

Í bókun frá Samfylkingu, Besta flokki og VG segjast fulltrúar þeirra flokka líta svo á að „víðtækt samráð hafi nú þegar farið fram og vísa til erindisbréfs stýrihóps um samstarf kirkju og skóla frá árinu 2007." Sá stýrihópur lagði fram skýrslu þar sem lagt var til að settar yrðu reglur um þessi samskipti.

„Meirihluti mannréttindaráðs telur sig vera að gera það og sér ekki ástæðu til að mynda enn annan stýrihópinn um nákvæmlega sama málefnið," segir í bókuninni. „Einnig er vert að benda á að viðmið þjóðkirkjunnar um samstarf kirkju og skóla frá árinu 2008 voru höfð til hliðsjónar við endurskoðun tillögunnar. Fulltrúar Samfylkingar, Besta flokks og Vinstri grænna, munu nú senda tillöguna til umsagnar menntaráðs, velferðarráðs og íþrótta- og tómstundaráðs. Það er einlægur ásetningur okkar að taka tillit til þeirra umsagna sem þaðan kunna að berast."

Fulltrúar Samfylkingar, Besta flokks og VG taka það einnig fram að fulltrúum trúar- og lífsskoðunarhópi sé ekki bannað að heimsækja grunnskóla. Vísa þeir í c. lið tillögu mannréttindaráðs, þar sem fram kemur að heimsóknir á skólatímum skuli fara fram undir handleiðslu kennara sem liður í fræðslu um trú og lífsskoðanir og í samræmi við gildandi aðalnámskrá og námsefni.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert