Kennarar hafna kjarasamráði

Eiríkur Jónsson formaður Kennarasambands Íslands.
Eiríkur Jónsson formaður Kennarasambands Íslands. mbl.is

Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, segir að það sé ekki áhugi með kennara á að taka þátt í víðtæku samstarfi allra launþegasamtaka um kjaramál, en Samtök atvinnulífsins eru að kanna grundvöll fyrir slíku samstarfi.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, átt fund með Eiríki fyrir stuttu þar sem hann óskaði eftir að kennarar kæmu að samningaborði með öðrum samtökum á launamarkaði. Markmiðið væri að allir launþegar fengju sömu launahækkanir.

„Ég held að ég geti fullyrt að það er ekki áhugi innan okkar raða á að endurtaka leikinn frá því í fyrra. Hann leiddi til þess að almenni markaðurinn samdi. Þar hafa orðið talsverðar launahækkanir á meðan við höfum ekki náð að semja fyrir 80% af okkar félagsmönnum,“ sagði Eiríkur.

Kennarasambandið var aðili að stöðugleikasáttmálanum í fyrra. Eiríkur sagði að sá samningur hefði „verið skelfileg reynsla“ fyrir kennara og ekki væri áhuga á að endurtaka það.

Grunnskólakennarar hafa verið samningslausir frá vorinu 2009 og leik- og tónlistarskólakennarar frá hausti 2009. Eiríkur sagðist gera sér grein fyrir að það væri erfitt að sækja launahækkanir til ríkisins og sveitarfélaganna við þessar aðstæður. Hann sagði að KÍ hefði lagt mesta áherslu á að vernda grunnlaunin og störfin. Það hefði tekist því atvinnuleysi meðal kennara væri lítið miðað við það sem gengi og gerðist meðal launþega í landinu. Hann sagði vilja ræða þessi atriði og fleiri beint við viðsemjendur kennara án milligöngu annarra.

„Við munum ekki fela Vilhjálmi og Gylfa [Arnbjörnssyni] að móta okkar kjarastefnu inn í framtíðinni,“ sagði Eiríkur.

Kennarasambandið er að ganga frá viðræðuáætlun við sveitarfélögin um gerð nýrra kjarasamninga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert