Útreikningar sem ekkert segja

Sigmundur Davíð kemur af fundi í stjórnarráðshúsinu.
Sigmundur Davíð kemur af fundi í stjórnarráðshúsinu. mbl.is/Eggert

Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins, líst ekkert sérlega vel á skýrslu sérfræðingahóps um skuldavanda heimilanna. Að einhverju leyti séu þó í henni upplýsingar sem koma að gagni við að meta stöðuna.

Sigmundur segir að það sé svolítið svekkjandi að hafa beðið í nærri mánuð eftir þessum útreikningum sem hann hafi talið að yrðu raunverulegir útreikningar á mismunandi leiðum. Nú hafi komið í ljós að útreikningar sérfræðingahópsins segðu í rauninni ekki neitt.

Hann tók sem dæmi það sem segir um flata lækkun skulda. Þar sé bara birt einhver tala sem vísi til tiltekins hlutfalls af öllum húsnæðislánum í landinu. Ekki sé tekið tillit til þess að þegar sé búið að færa lán niður í bönkum. Ekki sé heldur tekið tillit til þess að lífeyrissjóðir hafi keypt fasteignlánasjóð af ríkinu á afslætti. Í skýrsluna vanti útreikninga á raunverulegum kostnaði. Í henni séu settar fram tölur sem séu ekki réttar sem sé verra en að setja ekkert fram.

Sigmundur gerir einnig athugasemdir við skipan sérfræðingahópsins. Þar hafi setið menn sem gæti hagsmuna lánveitenda. „Maður veltir fyrir sér hvort verið sé að draga stjórnarandstöðuna á asnaeyrunum,“ segir hann. Forsætisráðherra hafi í þessu tilviki falið mönnum sem hún veit að eru fyrirfram andsnúnir flatri lækkun skulda að fara yfir og meta kosti mismunandi aðgerða.

Þeir sem sátu í sérfræðingahópnum voru:

Gísli Óttarson, Samtökum fjármálafyrirtækja, Marinó G. Njálsson, Hagsmunasamtökum heimilanna, Rafn Sigurðsson, fjármálaráðuneyti, Sigurður Geirsson, Íbúðalánasjóði, Þorkell Sigurgeirsson, Landssamtökum lífeyrissjóða, Yngi Örn Kristinsson og Sigurður Snævarr, efnahagsráðgjafi forsætisráðherra sem var formaður hópsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert