Hollvinir í hremmingum norðan heiða

Niðurskurði í heilbrigðiskerfinu var mótmælt við Alþingi í dag þrátt …
Niðurskurði í heilbrigðiskerfinu var mótmælt við Alþingi í dag þrátt fyrir slæmt veður.

„Við erum þokkalega á okkur komin núna, en ef við værum sjúklingar vildum við ekki vera í þessum hríðarbyl," segir Helga Sigurbjörnsdóttir, ein forystumanna Hollvinasamtaka Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki. Helga er nú á leið aftur norður í Skagafjörð í hríðarbyl. Í morgun tók það þau klukkustund og 20 mínútur að komast yfir Þverárfjallið og héldu þau um tíma að þau myndu neyðast til að snúa við. 

„Nú erum við að fara inn í Langadal og það sér varla út úr augum," segir Helga. „Við vorum klukkutíma og fjörutíu mínútur að fara yfir Þverárfjallið í morgun frá Sauðárkróki til Blönduóss, sem alla jafna tekur okkur hálftíma. Þetta er enginn barnaleikur, við vitum ekki hvernig veðrið getur verið."

Segja má að það sé kaldhæðnislegt að færðin hafi verið með þessu móti í dag, þegar fólk alls staðar að af landinu safnaðist saman á Austurvelli með undirskriftarlista þar sem mótmælt er fyrirhuguðum niðurskurði á framlögum til heilbrigðismála. Helga segir þó að það sé á sig leggjandi til að koma skilaboðunum á framfæri. „Við vildum gera það og vita hvort við hefðum erindi sem erfiði. Það er voðalega erfitt að segja til um framhaldið en við höfum þá bjargföstu trú að þetta verði til bóta."

Hún segir að mikil samstaða sé alls staðar á landsbyggðinni vegna niðurskurðarins. „Það er mikill misskilningur að við þurfum ekki á Landspítalanum að halda, við þurfum á þeim að halda en við viljum ekki missa frá okkur þjónustuna sem er algjörlega nauðsynleg. Við getum það ekki"

Urðu að ganga á undan bílnum

Skagfirðingarnir sem héldu suður í morgun lentu í hríðarbyl svo vart sá út úr augum. „Við þurftum að ganga á undan bílnum góðan spöl til þess að vita hvar vegurinn væri, því við sáum ekki á milli stika. Við vildum við ekki vera fæðandi kona eða sjúklingur sem þyrfti að færa akút á annað sjúkrahús"

Á meðan blaðamaður ræddi við Helgu fór skyggnið versnandi og sagði hún að stikurnar væru aftur að hverfa sjónum. „Við erum að koma hérna í mjög mikið fjúk. Ætli við verðum nokkuð komin heim fyrr en undir miðnætti."  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert