Jafnræðis ekki gætt í nafnbirtingum?

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi nýverið mann til greiðslu 120 þúsund króna sektar fyrir að hafa keypt sér vændi í tvígang. Nafn mannsins var ekki birt í dómnum en í Morgunblaðinu í gær var greint frá dómi yfir pilti á átjánda aldursári fyrir vörslu á efni með barnaklámi en nafn piltsins var birt í dómnum.

Spurningar hafa vaknað um hvort þarna sé jafnræðis gætt hjá dómstólum við birtingu nafna hinna ákærðu. Haft var eftir Símoni Sigvaldasyni, formanni dómstólaráðs, í blaðinu í gær að þegar menn væru sakfelldir fyrir kynferðisafbrot væri nafnleyndar aðeins gætt ef nafnið á hinum brotlega vísaði beint á brotaþolandann, en í öðrum tilvikum væri ekki nafnleynd. Nafnleyndar væri aldrei gætt sérstaklega í málum ungra afbrotamanna.

Spurður hvort ekki hefðu sömu rök átt að gilda í dómnum fyrir vændiskaupin, þ.e. að nafnbirting hefði ekki vísað beint á brotaþolandann í því tilviki, segist Símon í samtali við Morgunblaðið ekki geta svarað til um það. Reglurnar hljóði þannig að ef nafngreining á hinum brotlega leiði til þess að vitað sé hver brotaþolinn er, þá eigi að gæta nafnleyndar. „Það er síðan í höndum þess dómara sem fer með málið að meta þetta atriði. Þannig eru reglurnar úr garði gerðar. Þær eru leiðbeinandi en dómstólaráð ætlast til þess að eftir þeim er farið. Við höfum hins vegar ekki þá stöðu að geta tekið ráðin úr höndum dómara.“

Hvort til greina komi að endurskoða reglurnar, til að koma í veg fyrir misræmi í nafnbirtingum í dómum, segir Símon að dómstólaráð sé með þær til stöðugrar endurskoðunar. Nauðsynlegt sé að gæta jafnræðis en dómstólar hafi einnig fylgt Hæstarétti eftir í þessu efni sem öðru.

Íþyngjandi fyrir vændiskaupandann

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn um vændiskaupin. Hann segir dóminn hafa verið birtan án þess að getið væri nafna ákærða og annarra með heimild í 2. mgr. í 1. gr. reglna dómstólaráðs nr. 2/2009. Þar segir: „Ef ætla má að birting dóms eða úrskurðar sé sérstaklega íþyngjandi fyrir hlutaðeigandi er rétt að taka úr dómi eða úrskurði frekari upplýsingar en mælt er fyrir um í reglum þessum“.

Arngrímur vildi ekki svara því hvort þarna hefði frekar verið hlíft hinum brotlega með nafnleynd en að nafnbirting hefði vísað á brotaþolann.

„Reddað gellu" 

Í birtingu dóms fyrir vændiskaup er nafn og kennitala ákærða afmáð en merkja má að hann búi í einhverjum firði og stundi fasteignaviðskipti. Var hann ákærður fyrir að hafa keypt vændi í tvígang í Reykjavík, fyrir alls 35 þúsund kr.

Símtöl við vændiskonur voru hleruð og í einu þeirra er sagt að búið sé að „redda honum gellu“. Vildi ákærði stúlku fyrir sig og félaga sinn og að þær yrðu að vera hvítar, eins og segir í dómnum. 

Í símtölum aðstoðarkonu vændiskonunnar kom m.a. fram að tveir „kúnnar“ væru á leiðinni, þetta væri „important people“ (mikilvægt fólk) og stúlkurnar yrðu að líta vel út.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert