Breyta lögum um landsdóm

Dómsmála- og mannréttindaráðherra kynnti í morgun á fundi ríkisstjórnarinnar frumvarp …
Dómsmála- og mannréttindaráðherra kynnti í morgun á fundi ríkisstjórnarinnar frumvarp til breytinga á lögum um landsdóm. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Dómsmála- og mannréttindaráðherra kynnti í morgun á fundi ríkisstjórnarinnar frumvarp til breytinga á lögum um landsdóm sem byggt er á tillögum frá forseta Landsdóms.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem miða að því að samræma málsmeðferðarreglur fyrir landsdómi þeim reglum sem gilda um meðferð sakamála, kveða á um hver taki ákvörðun um hvort dómari uppfylli hæfisskilyrði til að geta setið í landsdómi og kveða á um ákvörðun þóknunar fyrir dómara og dómritara.

Lagt er til að kveðið verði á um að dómarar sem hafa byrjað meðferð máls ljúki því þó svo að kjörtímabil þeirra sé á enda svo ekki þurfi að skipa dómara á meðan á mál er til meðferðar í dóminum.

Kveðið eru á um í frumvarpinu um hver taki ákvörðun um hvort dómari uppfylli hæfisskilyrði til þess að geta tekið sæti í landsdómi. Slíkt ákvæði  er ekki að finna í lögunum í dag.

Lagt er til að kveðið verði á um hvernig með skuli fara þegar kveða skal upp rannsóknarúrskurði eða úrskurði um önnur atriði er varða rekstur máls. Til að einfalda málsmeðferðina er lagt til að forseti dómsins auk tveggja annarra af hinum löglærðu dómurum kveði upp slíka úrskurði.

Þá eru lagðar til breytingar á málsmeðferð fyrir landsdómi svo málsmeðferðin verði í meira samræmi við aðalmeðferð sakamála skv. lögum um meðferð sakamála.

Lagðar eru til breytingar á því hvernig staðið skuli að bókun í dómabók þannig að unnt verði að nýta þá tækni sem nú er til staðar við upptöku á skýrslum ákærðu og vitna.

Að lokum er lagt til að Kjararáð ákveði þóknun til dómenda og dómritara í stað þess að landsdómur geri það sjálfur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert