Bandormur um auknar tekjur ríkisins

Fjármálaráðuneytið.
Fjármálaráðuneytið.

Fjármálaráðherra hefur lagt fram frumvarp á Alþingi, svonefndan bandorm þar sem tillaga er um breytingar á ýmsum lögum með það að markmiði að auka tekjur ríkissjóðs á næsta ári.

Bæði er gert ráð fyrir hækkun á ýmsum sköttum og einnig um lækkun á útgjöldum ríkissjóðs. Ef þær ráðstafanir, sem lagt er til að gripið verði til í frumvarpinu, verða samþykktar mun afkoma ríkissjóðs batna um 15,6 milljarða króna á ársgrundvelli.   Er það í samræmi við þær forsendur sem settar eru fram í frumvarpi til fjárlaga fyrir næsta ár. 

Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að fjármagnstekjuskattur hækki úr 18% í 20% í byrjun næsta árs og sömuleiðis tekjuskattur lögaðila. Svonefndur auðlegðarskattur á fasteignir hækkar úr 1,25% í 1,50% af nettóeign hjóna yfir 100 milljónum og 75 milljónum hjá einstaklingum. Þá verður erfðafjárskattur hækkaður, áfengis- og tóbaksgjald lagt á vörur í fríhöfnum, kolefnisgjald hækkar og einnig er gert ráð fyrir viðbótarheimild til úttektar á séreignarsparnaði, sem á að skila ríkinu auknum skatttekjum. Samtals munu tekjur ríkisins aukast um 9,1 milljarð á næsta ári. 

4% hækkun á krónutölusköttum

Til viðbótar er gert ráð fyrir almennri 4% hækkun á nokkrum svokölluðum krónutölusköttum í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins. Í fyrsta lagi er lögð til 4% hækkun á olíugjaldi, almennu og sérstöku kílómetragjald, almennu vörugjaldi af eldsneyti og sérstöku vörugjaldi af bensíni. Samtals er gert ráð fyrir að þessar hækkanir skili um 750 milljóna króna tekjum í ríkissjóð. Þá er einnig lagt til að almennt og sérstakt kílómetragjald hækki um 4% og að hækkunin muni skila 30 milljóna tekjuauka.

Þá er lagt til að sérstakt útvarpsgjald hækki um 4% og það skili 140 milljónim króna í auknum tekjum, að vörugjald á áfengi hækki um 4% sem auki tekjur ríkissjóðs um 400 milljónir og vitagjald hækki, sem skili 10 milljóna króna. tekjuauka.

Jafnframt er lagt til að gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra verði hækkað um 4% og að hækkunin skili um 60 milljónum.

Útgjöldin lækka

Útgjöld ríkisins verða einnig lækkuð. Þannig er gert ráð fyrir að breytingar á barnabótum lækki greiðslur ríkisins um 1,3 milljarða á næsta ári.  Þá á að hækka tekjutengingu vaxtabóta úr 6% í 7% og skerða einnig bæturnar. Þetta á að spara 2,2 milljarða. 

Þá er lagt til að sóknargjöld lækki úr 767 krónum á mánuði samkvæmt núgildandi lögum í 698 krónur fyrir árið 2011. Með breytingunni er gert ráð fyrir að útgjöld ríkisins á árinu 2011 lækki um 183 milljónir. 

Þá er lagt til að framlag ríkissjóðs á árinu 2011 til þjóðkirkjunnar muni lækka um 100 milljónir og með sama hætti er lagt til að framlag ríkissjóðs til Kristnisjóðs muni skerðast um 5,9 milljónir á árinu.  

Í fimmta og síðasta lagi er í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins lagt til að grunnfjárhæðir almannatrygginga verði ekki verðlagshækkaðar. Segir fjármálaráðuneytið, að reikna megi með að fjárheimildir hefðu ella orðið um 2,7 milljörðum hærri miðað við spá um 3,5% almenna verðlagshækkun.
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert