Öll félögin hafa hækkað eldsneytisverð

Öll stóru eldsneytisfélögin hafa hækkað verð á bensíni og dísilolíu um tvær krónur. „Það sem liggur til grundvallar hækkunar núna er þróun á heimsmarkaðsverði og veiking krónunnar á móti dollara síðustu daga,“ segir Samúel Guðmundsson, framkvæmdastjóri vörustýringasviðs hjá Olís, við mbl.is.

Heimsmarkaðsverðið hafi farið hækkandi að undanförnu og krónan lækkað gagnvart Bandaríkjadal, sem kostar nú tæpar 113 kr. að því er fram kemur á vef Seðlabanka Íslands. Fyrir skömmu hafi dalurinn kostað 110 kr. Samúel tekur hins vegar fram að Olís hafi ekki sett alla hækkunina út í bensínverðið.

Það sé hins vegar ljóst að ef þróunin verði áfram með svipuðum hætti megi búast við frekari hækkunum á eldsneytisverði á næstunni.

Algengasta verð á lítra af bensíni og dísilolíu í sjálfsafgreiðslu hjá Olís er nú 200,6 kr. Sama verð er hjá N1 á báðum eldsneytistegundum.

Hjá Skeljungi kostar bensínið 201,4 kr. og dísilolían 201,7 kr.

Hjá Orkunni er algengasta verð á báðum eldsneytistegundum 198,3 kr. Hjá ÓB og Atlantsolíu er algengasta verðið 198,4 kr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert