Icesave-aðventan að renna upp

Þingmenn á Alþingi.
Þingmenn á Alþingi.

Þingmenn ræddu um Iceave í upphafi þingfundar í dag. Hvatti Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, m.a. til þess að þingmenn standi saman um að ljúka því máli. 

Þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sögðu að Icesave-aðventan væri að renna upp og greinilegt, að hafin væri mikil áróðursherferð fyrir nýjum Icesave-samningi.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði að vitað væri að ríkisstjórnin þyrfti að svara Eftirlitsstofnun EFTA um Icesave-málið 7. desember og það væri því engin tilviljun að Icesave færi á flug í fjölmiðlum nú.

„Við þekkjum þessa stöðu, þegar sagt er að að það ríði á að klára málið fyrir ákveðinn frest. Svona hefur þetta verið í allri sögu þessa máls. Við munum, að það átti varla að renna upp 24. október 2009, við munum pressuna fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna, við þekkjum þetta. Nú er farið að veifa dagsetningunni 7. desember framan í forsvarsmenn atvinnulífsins og því eru þeir farnir af stað," sagði hún.

Bjarni Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði að það sætti tíðindum, að  Icesave-væri orðið tilefni sérstakra kynningarfunda stjórnvalda með hagsmunaaðilum úti í bæ en það væri ekkert um það fjallað á Alþingi.

Bjarni sagði að Magnús Orri hefði á sínum tíma kallað andstöðu stjórnarandstöðunnar við Icesve-samninginn lýðskrum. „Nú hefur samninganefndin verið að störfum. Vonandi mun það starf leiða til betri og sanngjarnari niðurstöðu í málinu en þingið ákvað að afgreiða undir lok síðasta árs," sagði Bjarni. „Við skulum vona að umræða um þetta mál geti verið á hærra plani þar sem þingið rís undir kröfu þjóðarinnar að standa sameinað, heilt með íslenskum hagsmunum gegn ásælni og ásókn þeirra sem sótt hafa að okkur í þessu máli. Um það hefur Icesave-málið snúist frá upphafi, að leiða fram lausn, sem væri samboðin fullvalda þjóð."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert