Skotpallar á Íslandi?

Stefán telur að ekki muni duga til varnar Íslandi að …
Stefán telur að ekki muni duga til varnar Íslandi að hafa flaugar í öðrum löndum.

„Ég sé ekki hvernig þetta eigi að ganga upp öðruvísi. Það hlýtur að kalla á ratsjárkerfi og væntanlega líka skotpalla á Íslandi,“ segir Stefán Pálsson, formaður Samtaka hernaðarandstæðinga, um fyrirhugaðan eldflaugaskjöld Atlantshafsbandalagsins. Stefán telur ekki of seint að mótmæla áætluninni.

Að sögn Stefáns var ákvörðun um að reisa kerfið tekin á fundi NATO í Búkarest árið 2008 og bendir hann á að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi utanríkisráðherra, hafi ekki virst gera sér grein fyrir því að á fundinum hefði slík ákvörðun verið tekin þegar málið var borið undir hana við heimkomu úr ferðinni.

Ríkisstjórnin gerði mistök

Stefán gagnrýnir andvaraleysi stjórnvalda á sínum tíma.

„Ég er smeykur um að menn hafi gert alvarleg mistök með því að setja sig ekki gegn þessu á sínum tíma. Það eru í sjálfu sér engar framkvæmdir hafnar við skjöldinn þannig að ég sé nú ekki það sé neitt óafturkræft í því efni. Eflaust er ekki of seint fyrir íslensk stjórnvöld að tilkynna breytta afstöðu, aðra afstöðu í málinu.

Vel að merkja. Það var það sem að við í Samtökum herstöðvarandstæðinga bentum á á sínum tíma. Menn hafa látið eins og þetta snerist um stöðvar sem yrðu settar upp í Tékklandi og Póllandi á nokkrum stöðum Austur-Evrópu. En þegar maður rýnir í þessar tillögur að þá er þar sagt að gert sé ráð fyrir því að allt yfirráðasvæði NATO falli undir þennan eldflaugavarnarskjöld.

Þegar ég skoða landakort sé ég ekki að það gangi upp öðruvísi en svo að skjöldurinn feli í sér uppbyggingu á mannvirkjum á Íslandi. Ég yrði verulega undrandi ef að annar hvor stjórnarflokkanna yrði þá til í að fara í uppbyggingu mannvirkja tengdum þessum skildi hér á landi, ratsjárstöðvar, skotpalla og annað slíkt.“

Gengur ekki upp öðruvísi

- Þannig að þú telur að skotpallar kunni að verða reistir á Íslandi?

„Ég sé ekki hvernig þetta eigi að ganga upp öðruvísi, vegna þess að rætt er um það í tillögunum að öll aðildarríkin eigi að falla undir þennan svokallaða varnarskjöld sem gengur út á það komið verði upp flaugum - gagneldflaugum - sem eiga að skjóta niður flaugar á lofti.

Aðeins út frá vegalengdum - og ég tek fram að ég er ekki hernaðarsérfræðingur - sé ég ekki hvernig Ísland getur fallið undir þann skjöld með flaugum í öðrum löndum. Það hlýtur að kalla á ratsjárkerfi og væntanlega líka skotpalla á Íslandi.“

Ríkisstjórnin ranki við sér

Hvað viljið þið í samtökunum að ríkisstjórnin geri í málinu?

„Ríkisstjórnin á náttúrulega að ranka við sér. Hún á að vekja athygli á því að þessi stefna gangi ekki upp miðað við þá afvopnunarsáttmála sem eru í gildi. En alþjóðlegir afvopnunarsáttmálar um kjarnavopn taka meðal annars á gagneldflaugakerfum. 

Íslensk stjórnvöld eiga að marka sér þá stefnu að menn virði alþjóðlega afvopnunarsáttmála. Í fyrsta lagi hljóti menn að tilkynna bandalagsþjóðum í NATO þá afstöðu og hins vegar hljóta menn að segja mjög skýrt að hvað sem þessum samþykktum líður að þá komi það ekki til greina að fara í uppbyggingu á hernaðarmannvirkjum hér á landi í tengslum við þennan skjöld. 

Ég myndi telja það afar athyglisvert að heyra það frá ráðherra, til dæmis í Samfylkingunni, hvort hann myndi ljá máls á því að hér yrðu ekki sett upp eða nýtt mannvirki sem hluti af rekstri þessa skjaldar,“ segir Stefán sem bloggar um málið á heimasíðu sinni í dag.

Stefán Pálsson.
Stefán Pálsson. mbl.is/Sverrir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert