VG var á móti eldflaugaskildi

Steingrímur var flutningsmaður tillögunnar.
Steingrímur var flutningsmaður tillögunnar.

„Það má heita óumdeilt að uppsetning og tilvist eldflaugavarnakerfis af þessu tagi er ekki til þess fallin að stuðla að afvopnun og friðsamlegri sambúð þjóða,“ sagði í þingsályktunartillögu Steingríms J. Sigfússonar, Árna Þórs Sigurðssonar og Katrínar Jakobsdóttur fyrir tveimur árum. 

Tillagan var flutt fram 6. október 2008 og var Steingrímur flutningsmaður hennar.

Eins og kunnugt er tóku Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra þátt í þingi Atlantshafsbandalagsins, NATO, í Portúgal um helgina en þar var ný grundvallarstefna bandalagsins samþykkt og felur hún m.a. í sér aukið samstarf bandalagsins við Rússa varðandi uppsetningu eldflaugakerfis NATO í Evrópu.

Málið rætt í nefndinni 

Eins og fram kemur í þingsályktun þremenninganna voru Vinstri grænir andvígir slíku eldflaugakerfi er þeir voru í stjórnarandstöðu fyrir tveimur árum. Össur fullyrðir hins vegar að málið hafi oft verið tekið til umræðu í utanríkismálanefnd, staðhæfing sem Árni Þór, formaður nefndarinnar, segir orðum aukna. Málið hafi aðeins einu sinni verið til umræðu í nefndinni.

Í sama streng tekur Álfheiður Ingadóttir, varamaður VG í utanríkismálanefnd, í samtali við Morgunblaðið. „Utanríkisráðherra kom á einn fund sem ég sat og kynnti drög að nýrri stefnu Atlantshafsbandalagsins sem átti að leggja fyrir sérstakan NATO-fund í Póllandi. Þetta eldflaugavarnakerfi var ekki sérstaklega rætt að öðru leyti en því að Frakkar væru því mjög andvígir, líkt og við í Vinstri grænum höfum verið. VG hefur ekki stutt aðild Íslands að NATO og erum við með sérstöðu í íslenskum stjórnmálum að því leyti til. Það á að vera öllum ljóst.“

Hagur vopnaframleiðenda

Steingrímur, Katrín og Árni Þór töldu vopnaframleiðendur mundu hafa mikinn hag af áætlunum NATO.

„Vopnaframleiðendur hafa beitt sér ötullega fyrir því að Bandaríkin og NATO hrindi áformum um slíkt eldflaugavarnakerfi í framkvæmd enda er þeim mikill fjárhagslegur akkur í því að fá að vinna að smíði þessara reyfarakenndu vopna á næstu árum og áratugum. Ljóst er að það mun kosta gríðarlega fjármuni að byggja upp slíkt kerfi enda þótt enn sé allt á huldu um hvort þau áform séu á annað borð framkvæmanleg.
 

Það má heita óumdeilt að uppsetning og tilvist eldflaugavarnakerfis af þessu tagi er ekki til þess fallin að stuðla að afvopnun og friðsamlegri sambúð þjóða. Þvert á móti eru eldflaugavarnir líklegar til að stuðla að frekari vígbúnaði almennt, en einkum þó í þeim löndum sem þær beinast sérstaklega gegn, sbr. vígbúnaðarkapphlaupið á seinni hluta 20. aldarinnar.

Ef árásaraðili hefur í hyggju að hæfa skotmark sitt mun hann umfram allt leggja áherslu á að framleiða sem flestar eldflaugar og yfirgnæfa þannig viðbragðsgetu slíks eldflaugavarnakerfis. Virtir sérfræðingar á sviði vígbúnaðarmála hafa einnig bent á að ef ríki eða uppreisnar- eða hryðjuverkahópar ætla sér að koma kjarnorkusprengjum eða öðrum gereyðingarvopnum að skotmarki í fjarlægu landi sé mun líklegra að til þess verði notaðar aðrar flutningaleiðir en háloftin með eldflaugum.

Eins og ávallt hefur vígvæðing í einu ríki í för með sér að nágrannaríki þess vígvæðast að sama skapi. Raunar er fyrirsjáanleg vígvæðing í framhaldinu af eldflaugavarnakerfi Bandaríkjanna og NATO þegar hafin, því Rússar hafa svarað þessum fyrirætlunum með því að segja upp samningnum um takmörkun hefðbundins vígbúnaðar í Evrópu og jafnvel gefið í skyn að þeir muni aftur reyna að staðsetja kjarnorkuvopn á Kúbu. Hætta er á því að sú afvopnunarstefna á sviði kjarnorkuvígbúnaðar, sem átt hefur að heita við lýði frá lokum kalda stríðsins, heyri þar með brátt sögunni til,“ segir m.a. í tillögunni sem má nálgast hér.

Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon Eggert Jóhannesson
Merki Atlantshafsbandalagsins NATO.
Merki Atlantshafsbandalagsins NATO.
Katrín Jakobsdóttir
Katrín Jakobsdóttir Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert