Fjölgun dómara m.a. vegna landsdóms

Hús Hæstaréttar.
Hús Hæstaréttar. mbl.is/GSH

Ögmundur Jónasson, dómsmálaráðherra, segir að frumvarp, sem hann mælti fyrirá Alþingi í dag um tímabundna fjölgun bæði héraðs- og hæstaréttardómara, sé m.a. lagt fram til að bregðast við því að landsdómur mun koma saman á næstunni.

Samkvæmt frumvarpinu verður héraðsdómurum fjölgað um fimm og hæstaréttardómurum um þrjá á næsta ári. Í greinargerð með frumvarpinu segir að verið sé að bregðast við því aukna álagi sem orðið hafi á síðustu tveimur árum á dómstóla landsins. Er vísað til þess, að  ágreiningsmál frá slitastjórnum vegna krafna í þrotabú, einkum þrotabú fjármálafyrirtækja, muni verða mikil að umfangi.

Einar K. Guðfinnsson,  þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Ögmund hvort búast mætti við að annað frumvarp kæmi fram bráðlega um tímabundna heimild til að fjölga hæstaréttardómurum vegna starfa landsdóms. Ögmundur svaraði, að með fjölgun dómaranna nú væri m.a. verið að bregðast við þessu.

Fimm hæstaréttardómarar eiga meðal annars sæti í landsdómi, sem mun væntanlega koma saman á næsta ári til að fjalla um mál Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert