Sýknuð af ákæru fyrir rangar sakargiftir

mbl.is/GSH

Hæstiréttur hefur staðfest niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur um að sýkna stúlku af ákæru um að hafa borið fjóra karlmenn röngum sökum um kynferðisbrot.

Konan bar í nóvember árið 2008, að fjórir karlmenn hefðu nauðgað henni í húsi í Reykjavík. Konan reyndist vera undir áhrifum bæði áfengis og amfetamíns. Raunar var amfetamínmagn í blóði hennar yfir eitrunarmörkum.

Mennirnir fjórir voru handteknir og úrskurðaðir í vikulangt gæsluvarðhald en eftir tvo daga var þeim sleppt og tilkynnti lögregla þeim nokkru síðar að rannsókn málsins hefði verið hætt. Var það m.a. vegna þess að mynd- hljóðupptökur komu í ljós í farsímum sem bentu til þess að konan hefði viljug tekið þátt í kynferðisathöfnum með mönnunum. 

Mennirnir báru fyrir dómi að konan hefðu átt kynferðismök við þrjá þeirra af fúsum og frjálsum vilja. Konan hélt hins vegar jafnan því gagnstæða fram.

Fram kemur í dómi Hæstaréttar, að stúlkan var 17 ára þegar þetta gerðist en mennirnir frá því að vera þremur til tíu árum eldri en hún. Hún hafði engin kynni haft af þeim áður og í málinu var upplýst að þeir hafi stundum verið fleiri en einn inni í herberginu á meðan hún hafði við þá kynmök.

Segir Hæstiréttur að atburðarásin bendi eindregið til að skynjun konunnar hafi verið orðin mjög brengluð vegna mikillar neyslu fíkniefna á skömmum tíma þegar kynmökin fóru fram. Jafnframt séu meiri líkur en minni á því að fíkniefnin séu komin frá mönnunum en ekki konunni sjálfri.

Þá hafi komið fram að aðstaðan hafi öll verið á þann veg, að ókleift sé að útiloka að konan hafi upplifað hana sem nauðung sem hún hafi mátt þola. Telur Hæstiréttur að gegn eindreginni neitun konunnar sé ekki komin fram nægileg sönnun þess að hún hafi af ásetningi borið mennina röngum sökum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert