7000 krónur á fjögurra manna fjölskyldu

Jón Gnarr, borgarstjóri.
Jón Gnarr, borgarstjóri. mbl.is/Golli

Jón Gnarr borgarstjóri sagði á borgarstjórnarfundi í dag að ákveðið hefði verið að hækka útsvarið úr 13,03% í 13,20%. Gjaldskrár hækka frá 0-20% og álögur á fjögurra manna fjölskyldu sem á 40 milljóna króna fasteign eru taldar aukast um 7.000 kr. á mánuði.

„Við neyðumst til að skerða þjónustu og bæta byrðum á suma,“ sagði Jón Gnarr er hann mælti fyrir fjárhagsáætlun borgarinnar á borgarstjórnarfundi í dag. Hann sagði að borgaryfirvöld standi frammi fyrir að loka þurfi 5 milljarða gati.

Fram kom að farin yrði blönduð leið hækkana á sköttum og á gjaldskrá.

Í forsendum áætlunarinnar er gert ráð fyrir 8,5% atvinnuleysi í borginni á næsta ári og að verðbólga verði 1,7-1,8% innan ársins.

„Reykjavíkurborg má ekki skv. landslögum reka með tapi. Við fjárhagsáætlunargerðina stóðum við frammi fyrir því að þurfa að loka 5 milljarða kr. gati. Þetta gat er tilkomið af ýmsum ástæðum,“ sagði Jón Gnarr.

„Það er óhugsandi að hægræða um 5 milljarða án þess að það bitni á einhverjum,“ sagði hann.

Stefnt er að einföldun í stjórnkerfinu. Sagði borgarstjóri að bæði meirihluti og minnihluti séu sammála um þessa vinnu og ná eigi fram 300 milljóna kr. hagræðingu með þessum aðgerðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert