Fer fram á 5,6 milljónir króna vegna umfjöllunar DV

Heiðar Már Guðjónsson.
Heiðar Már Guðjónsson.

Fjárfestirinn Heiðar Már Guðjónsson hefur stefnt blaðamanni og ritstjórum DV vegna umfjöllunar blaðsins um að hann hefði hug á að taka stöðu gegn íslensku krónunni. Frá þessu er greint á fréttavef DV. Heiðar Már fer fram á 5,6 milljónir króna.

Fréttavefur DV birtir orðrétt upp úr stefnunni. Þar segir: „Augljóst er að hin ósönnu og ærumeiðandi ummæli og látlaus neikvæð umfjöllun stefndu um stefnanda var til þess fallin að draga úr trúverðugleika hans og þar með að hafa áhrif á framangreint mat eftirlitsaðila á hæfi hans til að fjárfesta í eftirlitsskyldum fyrirtækjum eða taka að sér ábyrgðarstörf í fjármálafyrirtækjum og vátryggingarfélögum.“

Vísar Heiðar Már þar til þess að Seðlabanki Íslands tók ekki kauptilboði hóps fjárfesta með Heiðar Má í forsvari í vátryggingafélagið Sjóvá. Eftir nokkra bið dró hópurinn tilboðið til baka.

Heiðar Már fer fram á 4 milljónir króna frá ritstjórum og blaðamanni en einnig 1,6 milljónir króna til að standa straum af kostnaði við birtingu dómsins í þremur dagblöðum og helstu vefmiðlum. Einnig að ákveðin ummæli verði dæmd dauð og ómerk.

Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 7. desember nk.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert