Þingmenn Hreyfingarinnar gagnrýna starfsreglur

Þingmenn Hreyfingarinnar.
Þingmenn Hreyfingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

 Þingmenn Hreyfingarinnar hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir gagnrýna starfsreglur stjórnlagaþings.

Yfirlýsing þingmanna Hreyfingarinnar um starfsreglur stjórnlagaþings
 
„Forseti Alþingis ásamt forsætisnefnd hafa nú samþykkt starfsreglur sem eiga að gilda fyrir stjórnlagaþingið sem kosið var til síðasta laugardag.  Með umræddum starfsreglunum teljum við að Alþingi sé að grípa með grófum hætti inn í störf stjórnlagaþingsins og fram fyrir hendur almennings á tímum þegar Alþingi nýtur mikils trausts aðeins 9% þjóðarinnar.
 
Alvarlegast er að í 16. grein starfsreglnanna er kveðið á um að stjórnlagaþingið skuli afhenda frumvarp til stjórnskipunarlaga, þ.e. drög að nýrri stjórnarskrá, til Alþingis til meðferðar. Þó að þessi grein starfsreglnanna sé í samræmi við 27. grein laga um stjórnlagaþing og eðlilega stjórnskipunarlega meðferð á drögum að nýrri stjórnarskrá, þá bendir Hreyfingin á að í 3. grein 6. tölulið stjórnlagaþingslaga kemur skýrt fram að það sé stjórnlagaþingið sjálft sem eigi að ákveða um tímasetningu og fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu um frumvarp til stjórnskipunarlaga. Þessi grein var sértaklega sett inn þannig að það væri á valdi stjórnlagaþingsins sjálfs að ákveða hvort þjóðin fengi að segja álit sitt á tillögu að nýrri eða endurbættri stjórnarskrá áður en Alþingi fengi hana til meðhöndlunar. Slík álit getur samkvæmt núgildandi stjórnarskrá að vísu aldrei orðið annað en ráðgefandi en þrátt fyrir það skiptir miklu máli að viðhorf almennings til nýrrar stjórnarskrár liggi fyrir, grein fyrir grein eða samhangandi greinar, áður en hið trausti rúna Alþingi ákveði hvað sé best fyrir þjóðina.
 
Í lögum um stjórnlagaþing er gert ráð fyrir að forsætisnefnd Alþingis setji stjórnlagaþinginu starfsreglur. Þær starfsreglur sem nú liggja fyrir eru um margt ágætar og bæta úr sumum þeim ágöllum sem eru á lögum um stjórnlagaþing eins og kostur er. Ef Alþingi fær að fara höndum um drög að nýrri stjórnarskrá án þess að álit almennings liggi fyrir teljum við að hætta sé á að ný stjórnarskrá verði barn Alþingis en ekki þjóðarinnar.
 
Sú tilraun Alþingis til að hrifsa til sín tillögu að nýrri stjórnarskrá áður en almenningur fær að segja sitt álit er því algerlega óásættanleg og til þess eins að skapa togstreitu milli stjórnlagaþingsins og Alþingis," segir í yfirlýsingu þingmannanna þriggja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert