Farið yfir Icesave-viðræður

Viðræður standa enn yfir í London.
Viðræður standa enn yfir í London. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þrír ráðherrar fóru yfir stöðu viðræðna við Breta og Hollendinga um Icesave-málið á fundi utanríkismálanefndar í kvöldmatarhléi á Alþingi í kvöld. Málið var talsvert rætt en í trúnaði, að sögn Árna Þórs Sigurðssonar, formanns nefndarinnar, og því ekki hægt að greina frekar frá því á þessu stigi.

Fundurinn var boðaður að ósk Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og Árni Páll Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra mættu sem gestir á fund nefndarinnar. Fundurinn stóð í rúma klukkustund.

Íslenska samninganefndin fór í morgun til viðræðna við fulltrúa Breta og Hollendinga og var fundum ekki lokið þegar utanríkismálanefnd fundaði, að sögn Árna Þórs.

„Ég er hvorki bjartsýnn né svartsýnn. Eins og komið hefur fram standa einhver atriði útaf núna og menn eru að reyna að ná saman um þau,“ sagði Árni Þór þegar hann var spurður að því hvort hann væri bjartsýnn um að samningar tækjust í þessari lotu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert