Mótmælir vegtollum

mbl.is/Ómar

Framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda mótmælir harðlega fyrirhuguðum vegtollum á Suðurlandi. Vegtollarnir muni þýða allt að þrjátíu þúsund króna útgjaldaaukningu hjá þeim sem aka vegina daglega, skattainnheimta á bifreiðaeigendur sé næg fyrir. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV.

Fram kemur að tjórnvöld áformi að verja 40 milljörðum króna til vegaframkvæmda og Vaðlaheiðarganga á næstu fjórum árum. Vegaframkvæmdirnar sem um ræði séu tvöföldun Suðurlandsvegar og Vesturlandsvegar og að lokið verði við tvöföldun Reykjanesbrautar.

Þá segir að Vegagerðin hyggist fjármagna framkvæmdirnar með vegtollum, sem verði um sjö krónur að meðaltali á kílómetra, á Reykjanesbrautinni milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur, á Suðurlandsveginum milli Reykjavíkur og Selfoss og á Vesturlandsvegi frá Mosfellsbæ að Hvalfjarðargöngum.

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda mótmælir fyrirhuguðum vegtollum harðlega.

Sjá grein sem Runólfur skrifar um málið á vef FÍB.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert