375 milljóna málsókn

mbl.is/Frikki

Kostnaður við málsókn slitastjórnar Glitnis gegn fyrrum hluthöfum og stjórnendum Glitnis fyrir dómstóli í New York nemur nú 375 milljónum króna, samkvæmt upplýsingum frá slitastjórninni. Þá upplýsir stjórnin að 90% kröfuhafa Glitnis séu erlendir og eignir séu að langmestu leyti staðsettar utan Íslands.

Segir í tilkynningu að kostnaðurinn sé ekki hár samanborið við þá hagsmuni sem slitastjórn sé að berjast fyrir að ná til baka til kröfuhafa. Dómari í New York ákvað í vikunni að vísa máli Glitnis frá á grundvelli þess, að aðillir aðilar þess væru íslenskir.

„Ákvörðun um málsókn var tekinn á grundvelli ráðgjafar virtrar bandarískrar lögmannsstofu enda snérist málareksturinn að grunni til um útboð sem fór fram í Bandaríkjunum og á grundvelli þarlendra laga. Þess utan háttar svo til, að margir hinna stefndu eru með lögheimili utan Íslands. Þá er vakin á því athygli að málinu var vísað frá með skilyrðum um viðurkenningu hinna stefndu á lögsögu íslenskra dómstóla og aðfararhæfi og þess utan var hverjum aðila málsins gert að bera sjálfur sinn kostnað,“ segir í tilkynningunni.

„Slitastjórnin vill einnig upplýsa að u.þ.b. 90% kröfuhafa Glitnis eru erlendir og eignir að langmestu leyti staðsettar utan Íslands. Heildarendurheimtur sem Glitnir hefur þegar fengið greiddar vegna  rannsókna frá upphafi til dagins í dag nema 3150 milljónum króna. Heildarkostnaður þessa málaflokks  þ.m.t. ofangreindur kostnaður svo og annar lögfræðikostnaður, endurskoðendakostnaður og kostnaður vegna rannsóknarfyrirtækisins Kroll nemur nú alls 1271 milljón króna,“ segir ennfremur.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert