Atkvæði greidd um bandorma

Frá Alþingi.
Frá Alþingi.

Þingfundur á Alþingi hófst klukkan 10 í dag með atkvæðagreiðslum um tvö fjáröflunarfrumvörp ríkisstjórnarinnar, svonefnda bandorma. Annars vegar er um að ræða frumvarp um ráðstafanir í ríkisfjármálum og hins vegar um skatta og gjöld, sem Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokks, kallaði raunar höggorm.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í upphafi atkvæðagreiðslunnar, að þingmenn flokksins legðust alfarið gegn frumvarpinu um ráðstafanir í ríkisfjármálum, það væri einfaldlega vont frá upphafi til enda. Hitt frumvarpið fæli hins vegar í sér nokkur framfaramál.

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að í frumvarpinu um ráðstafanir í ríkisfjármálum væri m.a. gert ráð fyrir því að auka verulega vaxtabætur sem skipti verulegu máli fyrir skuldsett fólk.

Sagði Helgi að vondir bandormar af þessu tagi hefðu oft verið afgreiddir frá hruni og haustið 2008 hefði ekki staðið á Sjálfstæðisflokknum að hækka skatta og álögur enda verið nauðsynlegt. Ljóst væri að afstaða flokksins réðist af því hvort hann væri í stjórn eða ábyrgðarlausri stjórnarandstöðu.

Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að síðara frumvarpið, um skatta og gjöld, „góði bandormurinn," væri eitt það ljótasta sem sést hefði á Alþingi. Frumvarpið væri 58 greinar og efnahags- og skattanefnd hefði aðeins haft hálfan mánuð til að fara yfir það. Breytingartillögur meirihlutans við frumvarpið hefðu þó að mestu leyti verið til bóta.

Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði að frumvarpið væri ekki bandormur heldur höggormur þar sem höggið væri til hægri og vinstri. Þar væri blandað saman ýmiskonar málum og myndu þingmenn Sjálfstæðisflokksins ýmist greiða atkvæði með eða á móti frumvarpsgreinunum eða sitja hjá.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert