Vilja viðskiptaþvinganir vegna hvalveiða

Hvalur 9 heldur á veiðar.
Hvalur 9 heldur á veiðar. mbl.is/Kristinn

Nítján umhverfisverndarsamtök hvöttu í gær bandarísk stjórnvöld til að beita Íslendinga viðskiptaþvingunum vegna hvalveiða. Vilja samtökin, að virkjuð verði bandarísk lög, svonefnt Pelly-ákvæði, sem kveður á um viðskiptaþvinganir gagnvart löndum sem grafa undan alþjóðlegum friðunarsáttmálum.

Samtökin Whale and Dolphin Conservation Society (WDCS) sendu viðskiptaráðherra og innanríkisráðherra áskorunina fyrir hönd regnhlífarsamtaka hvala- og dýraverndarsamtaka.  Telja WDCS að með hvalveiðum grafi Ísland undan virkni Alþjóðahvalveiðiráðsins og einnig CITES sáttmálans, sem fjallar um viðskipti milli landa með afurðir dýra og plantna í útrýmingarhættu.

Bandarísk stjórnvöld staðfestu árið 2004, að vísindahvalveiðar Íslendinga brytu gegn Pelly-ákvæðinu en George W. Bush, þáverandi Bandaríkjaforseti, ákvað að beita Íslendinga ekki efnahagslegum þvingunum.

Í tilkynningu frá WDCS segir, að stjórn Baracks Obama, núverandi forseta, sé að skoða málið og meta hvort ástæða sé til að virkja umrædd lög. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert