Pallbílamenningin í nauðvörn

Pallbíl lagt upp á stétt á Vesturgötunni.
Pallbíl lagt upp á stétt á Vesturgötunni. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Stórir og eyðslufrekir pallbílar munu eiga mjög undir högg að sækja eftir áramótin þegar ný vörugjöld á bifreiðar verða tekin upp. Til að bæta gráu ofan á svart mun kolefnisgjald hækka eldsneytisverð enn frekar en miðað við 20 lítra eyðslu mun meðalakstur díselknúins pallbíls kosta 683.000 kr.

Umskiptin sæta tíðindum í íslenskri bílasögu en pallbílar nutu talsverðra vinsælda er krónan var hvað sterkust í góðærinu. Nú er hins vegar líklegt að þeim muni fækka.

Verðið spilar inn í. Þannig er að óbreyttu útlit fyrir að lítraverðið stefni í 215-220 kr. á bensíni og dísel, þegar kolefnisgjaldið hefur verið fært inn í verðið.

Meðalakstur frá 12.000-16.000 km

Fram kemur á vef Umferðarstofu að meðalakstur bensínknúinna fólksbifreiða á árinu 2009 hafi verið 12.023 km en díselknúninna fólksbifreiða 16.260 km.

Hér á landi er fjöldi pallbíla sem eyðir frá 15 og upp í 20 lítrum á hverja hundrað ekna kílómetra í blönduðum akstri.

Miðað við að eknir séu 12.000 km á ári á pallbíl sem eyðir 20 lítrum á hundraðið og að lítraverðið af bensíni sé um 210 krónur er eldsneytiskostnaðurinn um 504.000 krónur á ári.

Meiri akstur á díselbílum

Talan hækkar umtalsvert ef miðað er við meðaltalið hjá díselknúnum fólksbifreiðum og fer þá í samtals um 683.000 krónur á ári, miðað við 16.260 km akstur og 20 lítra eyðslu á hverja hundrað ekna km.

Sé hins vegar reiknað með að verðið fari í 220 krónur er eldsneytiskostnaður díselknúins pallbíls kominn í 715.000 krónur og rekstur bensínsknúins pallbíls í 528.000 krónur á ári.

Við þetta bætast tryggingar, afskriftir og annað viðhald sem ætla má að kosti nokkur hundruð þúsund krónur á ári.

Verða hlutfallslega færri

Í ljósi ofangreinds útreiknings liggur beinast við að spyrja Jón Trausta Ólafsson, framkvæmdastjóra Öskju, hvort dagar stórra bensínháka séu að óbreyttu að baki.

„Ég myndi ekki segja að þeir væru liðnir. Ég tel hins vegar að hvað snertir vinsældir stórra bensínháka að þá megi fullyrða að sá tími sé liðinn. Sala á slíkum bílum mun dragast hlutfallslega mikið saman á næstunni, þótt það verði alltaf einhverjir í umferð. Stórir jeppar geta verið sparneytnir og losað lítið af koldíoxíði. Áhrifin af kolefnisgjaldinu eru því í takt við eyðslu og mengun, ekki stærð.“ 

Jón Trausti segir kolefnisgjaldið munu hafa misjöfn áhrif á listaverð nýrra bifreiða hjá Öskju.

„Það eru kostir og gallar í þessu frumvarpi. Þetta hefur misjöfn áhrif á bíla og bílategundir. Það eru bílar sem munu hækka í verði og svo aðrir sem munu verða ódýrari, eftir að breytingarnar hafa gengið í garð. Til dæmis munu 13 af 19 Kia-bílum sem eru til sölu hjá okkur í Öskju lækka miðað við verðlista, fjórir standa í stað og tveir hækka lítið eitt. Þessir bílar eru að lækka um allt að 10-15% í verði. Þá koma metanbílar vel út úr breytingunum, enda munu flestir metanbílar sem fluttir eru inn ekki bera vörugjöld.

Þá ber að geta þess að bifreiðagjöld munu breytast á nýju ári í takt við koldíoxíðslosun og mun bifreiðagjaldið á eyðslu- og mengunarfrekar bifreiðar því hækka.

Við hjá Öskju viljum líta jákvætt á þessar breytingar, bæði fyrir bílgreinina sem slíka og fyrir viðskiptavini okkar, sem býðst nú betra verð á hagkvæmum og umhverfismildari bílum,“ segir Jón Trausti.

Margir pallbílanna eru engin smásmíði.
Margir pallbílanna eru engin smásmíði.
Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju.
Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert