Uppbygging og vöxtur framundan

Jóhanna Sigurðardóttir flytur ávarp sitt í kvöld. Myndin er tekin …
Jóhanna Sigurðardóttir flytur ávarp sitt í kvöld. Myndin er tekin af útsendingu Sjónvarpsins.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði í áramótaávarpi sínu á gamlárskvöld, að Íslendingar hefðu rökstudda ástæðu til að ætla, að framundan sé betri tíð.

„Við vissum að það tæki langan tíma að vinna úr afleiðingum hins mikla efnahagshruns. Við höfum þurft að kljást við þessar afleiðingar, oft úr þröngri stöðu en nú sjást loks jákvæð teikn um bata og um að mikill árangur hafi náðst. Og ég fullyrði að framundan séu ár uppbyggingar og vaxtar, sagði Jóhanna.

Forsendan er friður á vinnumarkaði 

Hún sagðist vera sannfærð um að Íslendingar geti verið bjartsýnir á komandi tíð og þeir eigi að vera jákvæðir gagnvart framtíðarmöguleikum sínum og tækifærum.

„Okkur Íslendingum eru allir vegir færir ef við einsetjum okkur að horfa fram á veginn með jákvæðni að leiðarljósi. Sú orka sem býr í jákvæðu hugarfari getur gert kraftaverk. Við skulum leysa úr læðingi þann mikla samtakamátt sem í þjóðinni býr og beina honum í jákvæðan farveg uppbyggingar, framkvæmda, sköpunar og þróunar. Við þurfum að nýta öll sóknarfæri til að drífa áfram hjól atvinnulífsins og auka hér atvinnu, kaupmátt og hagvöxt. Forsenda þessa er ekki síst sú að okkur lánist á nýju ári að skapa áframhaldandi frið á vinnumarkaði. Það verður ein af stóru áskorunum komandi árs," sagði Jóhanna.

Árið sem sagt var skilið við kreppuna

Þá sagði hún, að Íslendingar ættu að gera árið 2011 að ári uppbyggingar og uppskeru.

„Gerum það að árinu þegar við sögðum skilið við kreppuna með áþreifanlegum hætti og hagur þjóðarinnar hóf að vænkast á ný. Látum þetta verða árið þegar farsælu samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn lauk og full sátt náðist við alþjóðasamfélagið á ný. Árið þegar við byrjum að uppskera aukna sátt, samstöðu og bjartsýni í samfélaginu eftir umrót og umbætur undanfarinna tveggja ára," sagði Jóhanna.

Sátt um fiskveiðistjórnunarkerfið

Jóhanna sagði að á nýju ári þurfi Íslendingar einnig að leiða til lykta áratuga deilur um auðlindamál.

„Við þurfum að ná sátt um nýjan grunn að sjálfbærri og sanngjarnri stefnu varðandi dýrmætustu auðlindir þjóðarinnar, meðal annars um fiskveiðistjórnunarkerfið. Auðlindir sjávar, orkan í iðrum jarðar og þau verðmæti sem fólgin eru í vatninu, jafnt heitu sem köldu eiga að vera sameign þjóðarinnar og þannig þarf að ganga frá málum að arðurinn renni með sanngjarnari hætti en verið hefur til allra Íslendinga."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert