Gera á mælingar á díoxín í janúar

Sorpbrennslustöðinnni Funa á Ísafirði hefur verið lokað.
Sorpbrennslustöðinnni Funa á Ísafirði hefur verið lokað. Mynd bb.is

Ákveðið var á fundi Umhverfisstofnunar og rekstraraðila sorpbrennslustöðva í dag, að gera mælingu á díoxín sem kemur frá stöðvunum. Stefnt er að því að sýni verði tekin í janúar en um mánuð tekur að fá niðurstöður úr þeim.

Þrjár sorpbrennslustöðvar eru í rekstri hér á landi og starfa þær allar á undanþágu frá reglum þar sem meðal annars eru sett mörk um díoxín. Stöðvarnar eru í Vestmannaeyjum, á Kirkjubæjarklaustri og að Svínafelli.

Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, sagði að stefnt væri að því að taka sýni í Vestmannaeyjum og Kirkjubæjarklaustri í þessum mánuði, en sýni yrði tekið í stöðinni í Svínafelli í maí, en hún er fyrst og fremst í rekstri á sumrin. Kristín sagði að jafnframt yrði unnið að mælingaáætlun því að ein mæling ein og sér gæfi ekki fullnægjandi upplýsingar, en díoxín fer mikið eftir magni og samsetningu sorpsins sem brennt er.

Kristín sagði að það lægi fyrir að Vestmanneyjabær ætlaði að auka flokkun á sorpi og þess væri vænst að mengun frá sorpbrennslunni myndi minnka við það. Stefnt væri að því að taka aðra mælingu þar eftir að flokkun sorps hefði hafist.

Kristín sagði að upplýsingar úr þessum mælingum yrðu kynntar almenningi vel strax og niðurstöður lægju fyrir. Greiningin á sýnunum er gerð erlendis, en Nýsköpunarmiðstöð Íslands sér um að taka sýnin. Áður þurfti að fá menn erlendis frá til að taka sýnin. Kristín sagði að kostnaður við sýnatökuna væri verulegur.

Umhverfisstofnun hefur gert tillögur til umhverfisráðherra um að sorpbrennslustöðvarnar fái tvö ár til að uppfylla kröfur sem gerðar eru til nýrra sorpbrennslustöðva. Ráðherra ætlar að óska eftir athugasemdum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, sorpbrennslustöðvunum og viðkomandi sveitarfélögum.

Á fundinum í dag kom fram ákveðin gagnrýni á sambandsleysi milli Umhverfisstofnunar og heilbrigðiseftirlits á viðkomandi svæði. Kristín sagði ákveðið að grípa til aðgerða til að bæta þetta. Heilbrigðiseftirlitin fá eftirlitsskýrslur frá Umhverfisstofnun þar sem mælingar á díoxín koma fram, en Kristín sagði að það væri hins vegar ekki nóg að senda skýrslur. Það þyrfti líka að ræða málin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka