Verður að sætta sig við umfjöllun

Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. Reuters

Eiður Smári Guðjohnsen verður að sætta sig við umfjöllun þegar halla fer undan fæti líkt og þegar allt vel gengur. Hvort sem er í viðskiptalífinu eða knattspyrnunni. Þetta sagði verjandi blaðamanns DV við aðalmeðferð sem fram fer í Héraðsómi Reykjavíkur.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi Inga Freys Vilhjálmssonar, sagði að eins og fjallað var um velgengni Eiðs Smára hjá Barcelona verður hann að sætta sig við umfjöllun um að hann komist ekki í liðið hjá Stoke City. Alveg sama gildi þegar kemur að viðskiptum Eiðs Smára og lána sem hann fær til fjárfestingaverkefna.

Vilhjálmur sagði að Eiður Smári hafi þegar honum hentaði notað frægð sína til fjárhagslegs ávinnings. Fjárhagsmálefni hans hafi ítrekað verið til umfjöllunar í fjölmiðlum þegar um var að ræða velmegun hans og verðmæti. Hann hafi ekki amast yfir þeirri umfjöllun. Það sé fyrst þegar umfjöllunin fer að snúast um skuldir hans.

Fjárfestingaverkefni með Wernerssonum

Þá sagði Vilhjálmur að fjárhagsmálefni Eiðs Smára eigi erindi við almenning. Fjallað hafi verið um óeðlilegar lánveitingar sem Eiður Smári fékk hjá Glitni og Kaupþing í Lúxemborg sem félagar hans úr knattspyrnunni sáu um að veita, án fullnægjandi veða. Lánin hafi ekki verið að fullu greidd og muni eflast lenda á íslensku þjóðinni.

Hann sagði að lán upp á annan milljarð króna hafi ekki getað verið til einkaneyslu. Eiður Smári hafi m.a. verið í fjárfestingaverkefnum með Karli og Steinrími Wernerssonum. Rýmri mörk eru þegar fjallað er um viðskipti manna og lánveitingarnar hafi sannarlega verið viðskiptalegs eðlis.

Þá sé Eiður Smári opinber persóna sem boðið hafi fjölmiðlum heim til sín. Meðal annars í sjónvarpsþætti þar sem rætt var við eiginkonu hans og þrjá syni. Auk þess hafi heimilið verið kvikmyndað í bak og fyrir. Það sé ekki mjög algengt hjá þekktum mönnum sem yfirleitt reyni að halda fjölskyldu sinni frá ágangi fjölmiðla. Eiður hafi ekki séð tilefni til þess.

Vilhjálmur sagði umfjöllun DV því vera eðlilega og sýkna eigi blaðamann DV af kröfum verjanda Eiðs Smára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert