Fjórða endurskoðunin samþykkt

Stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins samþykkti í kvöld fjórðu endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands og sjóðsins á fundi sínum í Washington í dag, 10. janúar. Þar með stendur íslenskum stjórnvöldum til boða lánafyrirgreiðsla sjóðsins að fjárhæð um 19 milljarðar króna.

Íslenskum stjórnvöldum stendur nú einnig til boða öll sú lánafyrirgreiðsla sem Norðurlöndin höfðu boðað í tengslum við áætlunina. Verður sú fyrirgreiðsla nýtt eftir því sem nauðsyn krefur, að sögn efnahags- og viðskiptaráðuneytisins.

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir í tilkynningu að þetta sé mikilvægur áfangi. 

Á vef ráðuneytisins segir, að í tengslum við endurskoðunina hafi stjórnvöld sent sjóðnum endurnýjaða viljayfirlýsingu. Þar komi fram, að efnahagsleg endurreisn sé í góðum farvegi, sem sjá megi á stöðugleika krónunnar, lækkandi skuldastöðu og lítilli verðbólgu. Jákvæður viðskiptajöfnuður hafi gert stjórnvöldum kleift að kaupa erlendan gjaldeyri til styrkingar gjaldeyrisforða. Nýlegir hagvísar bendi til að eftirspurn sé hægt og rólega að ná sér á strik og búist sé við jákvæðum hagvexti árið 2011.

„Efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar byggir á fjórum meginþáttum," segir ráðuneytið. „Í fyrsta lagi er unnið að því að byggja upp traust fjármálakerfi sem getur sinnt þörfum heimila og fyrirtækja. Í öðru lagi þarf að tryggja fjárhagslega stöðu ríkissjóðs og hins opinbera. Stór áfangi náðist í þeim efnum með samþykkt fjárlaga fyrir árið 2011, þar sem jöfnuður ríkissjóðs, að undanskildum vaxtagjöldum og –tekjum, er nánast í höfn. Í þriðja lagi verður að taka frekari skref til afnáms gjaldeyrishafta og móta peningastefnu til frambúðar. Í fjórða lagi þarf að tryggja aðlögun skulda heimila og fyrirtækja, með virkri þátttöku lánastofnana. Ný lagasetning um gengisbundin lán og samkomulag stjórnvalda, lánastofnana og lífeyrissjóða um aðgerðir í þágu heimila leggja grunninn að þeirri úrvinnslu skuldamála sem nú fer í hönd. Jafnframt hefur náðst samkomulag um hraða endurskipulagningu skulda lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Markmið efnahagsstefnunnar er að leggja grunninn að sjálfbærum hagvexti og atvinnutækifærum til framtíðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert