Veikari löggæsla á Vesturlandi

Frá umferðareftirliti lögreglunnar í Borgarnesi sunnan Holtavörðuheiðar.
Frá umferðareftirliti lögreglunnar í Borgarnesi sunnan Holtavörðuheiðar. mbl.is/RAX

Stjórn Lögreglufélags Vesturlands segir að sparnaður hafi þegar veikt löggæslu á Vesturlandi og lengra megi ekki ganga. Frekari niðurskurður muni stofna öryggi íbúa og lögreglumanna á Vesturlandi í hættu. Lögregla hafi stórfellt minni tækifæri til að sinn svonefndum frumkvæðismálum.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem stjórnin sendi fjölmiðlum í dag.

Í henni kemur fram að hjá öllum lögregluembættum á Vesturlandi hefur þurft að  skera niður yfirvinnu, draga úr akstri lögreglubíla, skila lögreglubílum til bílamiðstöðvar ríkislögreglustjóra ásamt því að dregið hefur verið úr afleysingum þegar lögreglumenn eru í fríi eða veikir. Á árinu 2011 sé enn farið fram á sparnað þrátt fyrir að glögglega megi sjá að sparnaður hefur þegar haft mjög neikvæð áhrif á löggæslu á Vesturlandi. 

Álag hafi aukist mjög á lögreglumenn. Þá bendir stjórnin á að lögreglumenn í Borgarnesi og í Dölum hafi notið aðstoðar frá Akranesi en væntanlega verði svigrúm til slíks minna. 

„Sá niðurskurður sem nú þegar hefur átt sér stað í löggæslumálum á Vesturlandi hefur valdið því að frumkvæðismálum lögreglu s.s. umferðarlagabrotum, akstri undir áhrifum áfengis og eða fíkniefna,  fíkniefnalagabrotum og öðrum málum sem krefjast þess að lögregluþjónar fari út og leiti uppi málin hefur stórfækkað,“ segir ennfremur í tilkynningunni. 

Bent er á að fjárlög ársins 2011 geri ráð fyrir því að kostnaður við löggæslu í umdæmi lögreglunnar á Akranesi kosti 105,6 milljónir, kostnaður við löggæslu í umdæmi lögreglunnar á Snæfellsnesi 94,2 milljónir og kostnaður við löggæslu í umdæmi Lögreglunnar í Borgarfirði og Dölum 104,5 milljónir. 

„Til samanburðar var í fjárlögum 2009 gert ráð fyrir að löggæsla í umdæmi lögreglunnar á Akranesi kostaði 110,1 milljónir, löggæsla í umdæmi lögreglunnar á Snæfellsnesi 97,5 milljónir og löggæsla í umdæmi lögreglunnar í Borgarfirði og Dölum 110,5 milljónir.  Eru lögreglu umdæmin síðan misjafnlega í stakk búinn til að takast á við niðurskurðinn.
Í janúar 2012 stendur til að sameina lögregluembættin þrjú á Vesturlandi og lögregluna á Vestfjörðum, þrátt fyrir að bent hafi verið á að fátt ávinnist með þeirri sameiningu og að ekki hafi verið sýnt fram á hagkvæmni slíkrar sameiningar.  Að auki hafa komið fram upplýsingar um að við sameiningu og fækkun lögregluembætta á landsbyggðinni muni ríkissjóður líklega fara fram á enn frekari sparnað í löggæslumálum á landsbyggðinni.   Er þetta þvert á þau upphaflegu markmið með sameiningu lögregluembætta þar sem markmiðið var að efla löggæslu,“ segir í tilkynningunni.
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert