Starfsmannalög verði endurskoðuð

Stjórnarráðið við Lækjargötu.
Stjórnarráðið við Lækjargötu. mbl.is/Ernir

Ríkisendurskoðun leggur til, að málsmeðferð við uppsögn ríkisstarfsmanna verði einfölduð og ákvæði starfsmannalaga um áminningu endurskoðuð. Flestir ríkisstarfsmenn njóta lögbundinnar verndar í starfi umfram launþega á almennum vinnumarkaði.

Ríkisendurskoðun segir, að þessi vernd birtist m.a. í því að ef ríkisstarfsmaður brýtur af sér í starfi eða árangur hans sé talinn ófullnægjandi verði yfirmaður að veita honum skriflega áminningu og gefa honum kost á að bæta ráð sitt. Ekki megi segja starfsmanninum upp nema hann brjóti aftur af sér með sama eða svipuðum hætti. Geri hann það megi þó ekki líða of langur tími milli brotanna því þá teljist fyrra brotið fyrnt og áminna þurfi að nýju og gefa starfsmanninum aftur kost á að bæta sig. 

Stofnunin segir deilt um, hvort eðlilegt sé að ríkisstarfsmenn búi við meira starfsöryggi en launþegar á almennum vinnumarkaði. Því hafi m.a. verið haldið fram að lagaákvæði sem vernda ríkisstarfsmenn geti komið niður á skilvirkni og árangri opinbers rekstrar og að nauðsynlegt sé að auka sveigjanleika í starfsmannamálum ríkisins.

Áminningu er mjög sjaldan beitt. Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að ástæðan sé m.a. sú að ferlið, sem lögin mæla fyrir um, sé flókið og tímafrekt. Könnun Ríkisendurskoðunar meðal forstöðumanna hafi leitt í ljós, að margir þeirra veigra sér við því að beita áminningu og nota fremur önnur og óformlegri úrræði ef þeir telja sig þurfa að segja upp starfsmanni. Einnig ríki neikvætt viðhorf í samfélaginu til áminningar en hún sé talin jafngilda ærumissi fyrir þann sem fyrir henni verður.

Þá segist Ríkisendurskoðun telja, að ekki sé ávallt við hæfi að beita áminningu þótt skilyrði fyrir beitingu hennar virðist vera fyrir hendi, t.d. geti ástæða þess að starfsmaður nái ekki fullnægjandi árangri verið sú að hann skorti líkamlegt eða andlegt atgervi. Úrræðið sé því að ýmsu leyti gallað og nýtist ekki eins og upphaflega var ætlað.
 
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er lagt til að málsmeðferð við uppsögn ríkisstarfsmanna verði einfölduð og ákvæði starfsmannalaga um áminningu endurskoðuð. Bent er á að þótt áminningarskyldan yrði felld brott myndu stjórnsýslulög eftir sem áður tryggja að uppsagnir byggðust á málefnalegum sjónarmiðum. Að mati Ríkisendurskoðunar veita lögin ríkisstarfsmönnum fullnægjandi réttarvernd.

Vefur Ríkisendurskoðunar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert