Tap hjá Samfylkingunni

Frá flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í desember.
Frá flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í desember. Eggert Jóhannesson

Tap á rekstri Samfylkingarinnar nam 27,4 milljónum króna á árinu 2009 samkvæmt ársreikningi sem flokkurinn hefur skilað til Ríkisendurskoðunar. Á árinu 2008 skilaði flokkurinn hagnaði upp á 58,5 milljónir króna.

Tekjur flokksins 2009 námu tæplega 170 milljónum, þar af eru ríkisframlög, framlög sveitarfélaga, lögaðila og einstaklinga tæplega 165 milljónir króna. Tekjurnar voru svipaðar og árið 2008.

Rekstrargjöld flokksins árið 2009 hljóða upp á 190 milljónir króna, en í fyrra voru gjöldin 99,6 milljónir sem gerir um 90 milljóna króna hækkun. Skuldir flokksins námu í lok árs 2009 um 106,9 milljónum og höfðu aukist um 34,54 milljónir frá árinu á undan.

Alls fékk flokkurinn 8 milljónir króna í styrki frá fyrirtækjum. Hæstu styrkirnir voru frá Brimi, Ölgerð Egils Skallagrímssonar, Mannviti verkfræðistofu, AKSO, Samskipum, Icelandic Group, Styrktarsjóði SUJ, Húsasmiðjunni, MP banka, Síldarvinnslunni, Samkaupum, Atlantsolíu, Samherja, Exista, Högum og Vísi, 300 þúsund frá hverju fyrirtæki. Þá námu framlög sveitarfélaga 16,7 milljónum króna.

Framlög einstaklinga námu 24,6 milljónir krónum. Í ársreikningnum er tekið fram að fyrir liggi staðfesting endurskoðanda um að framlag hvers einstaklings hafi verið innan lögboðinna marka, þ.e.a.s. 300 þúsund krónum.

Alþingiskosningar voru haldnar í apríl 2009 og því hefur rekstur flokkanna verið dýr það ár. Á vef Ríkisendurskoðunar má finna útdrátt úr uppgjörum stjórnmálasamtaka en Framsóknarflokkurinn á eftir að skila ársreikningi sínum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert