Styðjast ekki við upptökur eða vitni

Rannsókn lögreglu á dularfulla þingtölvumálinu stendur enn yfir.
Rannsókn lögreglu á dularfulla þingtölvumálinu stendur enn yfir. mbl.is/Árni Sæberg

Lögreglan í Reykjavík hefur hvorki stuðst við myndbandsupptökur né vitnisburði þingmanna við rannsókn á fartölvunni sem grunur leikur á að hafi átt að nota til njósna á Alþingi. Eftirlitsmyndavélar í grennd við skrifstofuna þar sem tölvan fannst voru bilaðar og náðu því ekki mynd af þeim sem kom tölvunni fyrir. Tölvan fannst fyrir tæpu ári og hefur enn engin niðurstaða fengist í rannsókn málsins.

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir að þingmenn hafi ekki verið spurðir út í mannaferðir á svæðinu, þrátt fyrir skort á upplýsingum vegna bilana eftirlitsmyndavélanna. Hann segir að lögreglan hafi einfaldlega ekki haft neitt í höndunum um það hver hefði komið tölvunni fyrir. Því hafi lögreglan ekki getað kallað neinn þingmann til yfirheyrslu.

Rannsókn lögreglu stendur enn yfir að sögn Stefáns. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, sagði á Alþingi í gær, að rannsókn lögreglunnar hefði staðið yfir í um viku og að skrifstofustjóra Alþingis hefði að lokum verið tilkynnt að rannsókninni hefði lokið án árangurs.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, furðar sig á því hvers vegna ekki var talað við þingmenn. „Hvers vegna var ekki rætt við þá sem starfa í næsta nágrenni við þennan stað þar sem þessi grunsamlega tölva fannst og þeir til dæmis spurðir út í mannaferðir í aðdraganda þess að tölvan fannst.“ Lögreglustjóri fundar með forsætisnefnd í dag.

„Voru bara þarna sem gestir“

Að sögn Þórs Saari, þingmanns Hreyfingarinnar, voru Julian Assange og aðrir fulltrúar Wikileaks gestir í byggingunni þar sem tölvan fannst í desember, janúar og febrúar. Þar fóru fram fundir um þingsályktunartillögu um að Ísland skapaði sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi verndun tjáningar- og fjölmiðlafrelsis. „Þeir voru bara þarna sem gestir á fundum. Það var verið að vinna IMMA-þingsályktunartillöguna og þetta voru ekki bara Julian og Wikileaks sem voru þarna heldur líka bandarískur lögfræðingur, hollenskur lögfræðingur, fréttamaður frá BBC og alls konar sérfræðingar í upplýsingamálum. Þetta var flókið mál og legið lengi yfir því hvernig væri hægt að gera þetta.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert