Viðræðum um samræmda launastefnu hætt

Fundur fulltrúar ASÍ og SA hófst klukkan 14 í húsnæði …
Fundur fulltrúar ASÍ og SA hófst klukkan 14 í húsnæði ríkissáttasemjara og stóð í tvær klukkustundir.. mbl.is/Árni Sæberg

Viðræðum ASÍ og SA um gerð kjarasamnings til allt að þriggja ára með mótun samræmdrar launastefnu hefur verið hætt þar sem SA stendur fast á þeirri kröfu að fundin verði lausn í sjávarútvegsmálum áður en gengið verður frá samningum. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir eftir fund með SA í dag að málið sé nú aftur komið í hendur einstakra aðildarfélaga.

Óvissa er um framhald kjaraviðræðnanna á almenna vinnumarkaðinum. Forysta ASÍ sér ekki tilgang í að halda áfram tilraunum til að móta samræmda launastefnu til lengri tíma á meðan Samtök atvinnulífsins standa fast á því skilyrði að finna verði lausn í sjávarútvegsmálum áður en gengið verður frá samningum.

Stjórnvöld lýstu vilja til að koma að viðræðum

Fundur samninganefnda ASÍ og SA hófst hjá sáttasemjara kl. 14. Beðið var svara ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að greiða fyrir lausn samninga. Gylfi segist hafa fengið upplýsingar frá forsætisráðherra fyrir fundinn.  

„Ég talaði við forsætisráðherra í síma rétt fyrir fundinn og met það svo að það sé vilji stjórnvalda að koma að viðræðum við okkur um þau atriði sem við settum fram og þroska lausnir á þeim málum sem við höfum sett sem úrslitaatriði,“ segir Gylfi.  

ASÍ vill hins vegar ekki tengja skilyrði SA um breytingar í sjávarútvegsmálum við gerð kjarasamninga. „Það er krafa atvinnurekenda að þetta mál sé forsenda og fyrirvari af þeirra hálfu, bæði hvað varðar formlega aðkomu þeirra að umræðunni við ríkisstjórnina við mótun frumvarps en líka hvað varðar efni þess,“ segir Gylfi.

„Það er alveg á hreinu að við erum ekki tilbúin að setjast að viðræðu við atvinnurekendur um þriggja ára kjarasamning, sem var þeirra tillaga, byggt á þeirri forsendu að það sé hægt að taka efni slíks samnings og nota sem þvingunaraðgerð við stjórnvöld um afstöðu útgerðarmanna í sjávarútvegsmálum. Til þess verður Alþýðusambandið ekki notað.

Þá bara skilja leiðir. Með þetta er einfaldlega tilraunum okkar til að ná saman um einhverja samræmda þriggja ára leið úr sögunni,“ segir Gylfi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert