Trúnaði verði aflétt

Kristján Þór Júlíusson.
Kristján Þór Júlíusson. mbl.is/Ómar

Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, fór fram á það í upphafi þingfundar í dag að að aflétt verði trúnaði af samtali seðlabankastjóra Íslands og Englands frá árinu 2008, sem fjárlaganefnd Alþingis var sýnt á fundi í gærkvöldi.

Sagðist Kristján Þór fara fram á þetta vegna þess hvernig nokkrir þingmenn, sem sitja í fjárlaganefnd, hefðu fjallað um samtalið í fjölmiðlum og túlkað það. Fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins tóku í sama streng og vísuðu einkum til umfjöllunar Björns Vals Gíslasonar, varaformanns fjárlaganefndar á vef sínum í morgun. Það sama gerðu nokkrir þingmenn Framsóknarflokks. Björn Valur sagði á vefnum, að miðað við þau gögn sem fyrir liggi og miðað við sögu og stöðu þeirra tveggja sem þarna töluðu saman í síma, til viðbótar skilningi annarra á umræddu símtali, myndi hann fara varlega í að túlka samtalið með þeim hætti Davíð Oddson, fyrrverandi seðlabankastjóri, hafi gert.

Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður fjárlaganefndar, sagðist fullyrða að hún hefði haldið trúnað og ekki tjáð sig um innihald trúnaðarskjalanna. Hins vegar verði málið á ný til umfjöllunar á fundi í fjárlaganefnd í fyrramálið. En meðan að aðilar málsins hafi ekki samþykkt að aflétta trúnaði af samtalinu verði þeim trúnaði haldið.

Kristján Þór sagði að þetta mál veki menn til umhugsunar um hvernig farið sé með trúnaðarupplýsingar inni í þinginu og spurði hann Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, forseta þingsins, hvaða reglur giltu um slíkar upplýsingar.

Ásta Ragnheiður sagði, að ýmsar reglur giltu á Alþingi um trúnaðarupplýsingar en þær byggðu ekki allar á lögum. Gert væri ráð fyrir því, að í nýju frumvarpi um þingsköp verði tekið á því. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert