Sakaði tölvudeild þingsins um yfirhylmingar

Vígdís Hauksdóttir.
Vígdís Hauksdóttir.

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, sagði á Alþingi í dag að tölvudeild Alþingis hefði verið notuð til að hylma yfir það að óþekkt tölva fannst í skrifstofubyggingu Alþingis.  Vigdís baðst síðar afsökunar á þessum ummælum.

Vigdís gerði tölvufundinn að umtalsefni í umræðum um störf þingsins og vísaði til ákvæða hegningarlaga um landráð.  „Þetta er grafalvarlegt mál og mér þykir forseti Alþingis og ríkisstjórnin öll hafa tekið þessari uppgötvun af mikilli léttúð," sagði Vigdís og gagnrýndi að ríkislögreglustjóri hefði ekki verið kallaður til strax og tölvan fannst því þarna gætu verið um njósnir að ræða.

„Það var brugðið á það ráð að tölvudeild Alþingis var notuð til þess að hylma yfir málið og eftir því sem manni skilst af fjölmiðlum voru tölvudeildin og lögreglan í Reykjavík notuð til að þagga málið niður," sagði Vigdís.

Atli Gíslason, þingmaður VG, sagði það aðfinnsluvert þegar þingmaður sakaði tölvudeild Alþingis að hylma yfir í ákveðnu máli. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti þingsins, sagðist taka undir þessa athugasemd og sagði það grafalvarlegt þegar þingmaður vændi starfsfólk Alþingis um svo alvarlega hluti. Sagðist hún hafa ætlað að ræða þetta við þingmanninn.

Vigdís baðst afsökunar á orðum sínum. „Það sem ég átti við undir glymjandi bjölluslætti forseta var, að  tölvudeild Alþingis ráðlagði það, að málið færi ekki í hámæli," sagði Vigdís.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert