Eignarnám HS Orku ekki útilokað

„Enginn ábyrgur stjórnmálamaður útilokar eignarnám komi sú staða upp að skilgreindir almannahagsmuni eru í húfi sem ekki verða varðir með öðrum leiðum,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra við umræðu um HS Orku á Alþingi í dag. Hún sagði eignarnámið þó ekki á dagskrá enda viðræður við Magma að hefjast.

Umræðuna sem var utandagskrár hóf Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks. Hann sagði hana tilkomna vegna nýlegra frétta af því að umboðsmaður Alþingis hafi nýlega sent efnahags- og viðskiptaráðuneytinu og forsætisráðuneytinu athugasemdir og beiðni um svör vegna málsins. „Þannig háttar til að okkur var það ekki kunnugt að umboðsmaður Alþingis hefði gert athugasemdir við stjórnsýslu ríkisstjórnarinnar í málinu,“ sagði Bjarni.

Bjarni benti einnig á að nýverið hafi komið fram af hálfu iðnaðarráðherra að eignarnám fyrirtækisins væri ekki á dagskrá en „jafnvel eftir að það kemur fram koma forsætisráðherra og fjármálaráðherra aftur fram með eignarnámshugmyndina.“ Bjarni sagði hugmyndina galna enda fylgdi með um þrjátíu milljarða króna reikningur fyrir skattgreiðendur.

Ballið byrjaði árið 2007

Jóhanna Sigurðardóttir sagði málefni HS Orku ekki rædd nema í samhengi við þá miklu umræðu sem fari fram í samfélaginu um orku- og auðlindamál, og þá slæmu reynslu sem orðið hafi af „einkavæðingaráráttu“ Sjálfstæðisflokksins á undanförnum áratugum. „Ballið byrjaði þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks ákvað að selja 15% hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja fyrri hluta árs 2007,“ sagði Jóhanna og bætti við að í framhaldinu hefði félagið smátt og smátt verið fært í hendur einkaaðila, þá aðallega Geysi Green Energy, sem hefði í mestu verið í eigu FL Group.

Jóhanna sagði að síðan þá hefði verkefnið verið að vinda ofan af mistökunum. „Hvað HS Orku varðar er staðan einfaldlega þannig að Magma Energy í Svíþjóð hefur með lögmætum hætti eignast nær allt hlutafé í félaginu og ríkisstjórnin hefur ekki haft neina beina aðkomu að því máli enda einkavæðing félagsins fyrir löngu lokið.“ Þá sagði hún ljóst að hvorki nefnd um erlenda fjárfestingu eða sérstök nefnd ríkisstjórnarinnar í orku- og auðlindamálum töldu gerlegt fyrir ríkisstjórnina að grípa inn í viðskiptin.

Þá sagði Jóhanna að viðræður væru að hefjast við Magma Energy um kauprétt opinberra aðila og annarra íslenskra aðila og forskaupsrétt ríkisins á hlutum í HS Orku. „Eignarnám er ekki á dagskrá. Það er svo annað mál að engin ábyrgur stjórnmálamaður útilokar eignarnám komi sú staða upp að skilgreindir almannahagsmuni eru í húfi sem ekki verða varðir með öðrum leiðum.“

Bjarni sagði ljóst á orðum Jóhönnu að hún vildi ekki slá eignarnám út af borðinu, og nái ríkisstjórnin ekki því fram sem hún vill í viðræðunum verði eignarnámi beitt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert