Rolexúri vísað heim í hérað

Úr af gerðinni Rolex Oyster.
Úr af gerðinni Rolex Oyster.

Hæstiréttur hefur ómerkt dóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir manni, sem dæmdur var í 400 þúsund króna sekt fyrir að ætla að flytja til landsins Rolex Oyster armbandsúr, 5 silkihálsbindi, 21 silkihálsklút og leðurhandtösku án þess að greiða innflutningsgjöld.

Maðurinn benti á, að hann hefði í héraðsdómi verið ákærður fyrir tiltekið ákvæði tollalaga en sakfelldur fyrir brot á öðru ákvæði laganna. Því hefði hann ekki komið að réttum málsvörnum. Undir það tók Hæstiréttur, ómerkti dóminn og vísaði málinu aftur heim í hérað.

Maðurinn kom með flugvél til landsins frá Kaupmannahöfn í janúar í fyrra. Fram kemur í héraðsdómi, að maðurinn hafi gengið með eitt silkihálsbindi, einn silkihálsklút og leðurhandtösku um tollhlið merkt skilti með áletruninni „Enginn tollskyldur varningur". Samferðamaður mannsins gekk með annan varning, sem tilheyrði farangri mannsins, um sama tollhlið.

Leitað var í farangri mannsins og fundust þá munirnir sem hann var með í tösku sinni. Hann skilaði öðrum munum til tollgæslunnar daginn eftir. 

Úrið var metið á rúmar 619 þúsund krónur, silkihálsbindin á samtals 63 þúsund krónur, hálsklútarnir á 265 þúsund krónur og taskan á 56 þúsund krónur.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert