Vilja draga umsóknina til baka

Unnur Brá Konráðsdóttir í ræðustóli Alþingis.
Unnur Brá Konráðsdóttir í ræðustóli Alþingis.

Þrír Alþingismenn hafa lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um að ríkisstjórninni verði falið að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

Flutningsmennirnir eru Unnur Brá Konráðsdóttir, Sjálfstæðisflokki, Ásmundur Einar Daðason, Vinstri grænum og Gunnar Bragi Sveinsson, Framsóknarflokki.    

Í greinargerð með tillögunni segir m.a. að mikilvægt sé að nýta krafta stjórnsýslunnar og fjármagn ríkisins til þeirra brýnu verkefna, sem fyrir liggi í kjölfar bankahrunsins. Það sé slæmt fyrir orðspor Íslands á alþjóðavettvangi að halda áfram aðildarferlinu þegar bersýnilegt er að hugur fylgi ekki máli.

„Íslandi og Evrópusambandinu er lítill greiði gerður með því að íslensk stjórnvöld efni til aðildarviðræðna á þeim hæpnu forsendum sem hér hafa verið raktar. Fyrirsjáanlegt er að aðildarsamningur verði felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu og sú niðurstaða mun ekki auka velvilja í garð Íslendinga hjá aðildarþjóðum Evrópusambandsins," segir í greinargerðinni.

Ásmundur Einar er formaður Heimssýnar, samtaka sjálfstæðissinna í Evrópumálum og Unnur Brá er varaformaður samtakanna.

Þingsályktunartillagan

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert