SA: Loðnubrestur af mannavöldum yfirvofandi

mbl.is/Kristinn

Samtök atvinnulífsins segja að ef það komi til verkfalls starfsmanna í fiskimjölsverksmiðjum verði landsmenn að kljást við alvarlegar afleiðingar loðnubrests af mannavöldum. Þjóðfélagið muni verða af miklum verðmætum, fyrirtæki verði fyrir umtalsverðu tjóni og starfsmenn þeirra tapi launagreiðslum.

Fram kemur á vef SA að þetta hafi verið á meðal þess sem hafi komið fram á opnum fundi SA um atvinnumálin í Vestmannaeyjum sl. föstudag, þar sem Vilmundur Jósefsson, formaður SA, og Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, kynntu atvinnuleiðina, sem er sýn Samtaka atvinnulífsins á leiðina út úr kreppunni.

SA hafnar kröfum Afls og Drífanda um 30% hækkun launa starfsmanna í fiskimjölsverksmiðjum. Samtökin segja að tuga prósenta launahækkun í einstökum kjarasamningum myndi óhjákvæmilega flæða yfir allan vinnumarkaðinn og leiða af sér verðbólguöldu, enn lægra gengi krónunnar, hærri vexti, meira atvinnuleysi, skattahækkanir og enn lakari lífskjör. 

Þá segir að á fundi SA í Vestmannaeyjum hafi komið fram mikil samstaða meðal atvinnurekenda um að standa gegn því að þessi verðbólguleið verði farin.

Nánar á vef SA.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert