Mun ekki svara spurningum

Gunnar Rúnar Sigurþórsson.
Gunnar Rúnar Sigurþórsson.

Gunnar Rúnar Sigurþórsson mun ekki svara neinum spurningum við aðalmeðferð í manndrápsmáli sem fram fer í Héraðsdómi Reykjaness í dag. Hann mun aðeins staðfesta lögregluskýrslur. Kom þetta fram við upphaf aðalmeðferðar. Hann óskaði einnig eftir því að víkja úr dómsal, og orðið var við því.

Gunnar Rúnar, sem er 23 ára Hafnfirðingur, hefur játað að hafa orðið Hannesi Þór Helgasyni að bana á heimili Hannesar í Hafnarfirði.

Samkvæmt ákæruskjali er Gunnar Rúnar ákærður fyrir að hafa veist að Hannesi á heimili hans og banað með því að stinga hann ítrekað í brjóst, bak og hendur með hnífi. Gekk hnífurinn meðal annars í hjarta, lungu og nýra. Krafist er fangelsisrefsingar en til vara að hann sæti öryggisgæslu á viðeigandi stofnun.

Guðrún Sesselja Arnardóttir, verjandi Gunnars Rúnars, tilkynnti um það við upphaf aðalmeðferðar í morgun að hann myndi nýta sér rétt sinn til að svara ekki spurningum um ákæruefnið. Hann myndi hins vegar staðfesta þær lögregluskýrslur sem liggja frammi í málinu. Einnig fór hún fram á að Gunnar Rúnar fengi að víkja úr dómsal.

Að svo búnu var gert hlé á þinghaldi. Í kjölfarið verður tekin skýrsla af geðlæknum. Einnig stóð til að taka skýrslu af réttarmeinafræðingi en horfið var frá því, þar sem hann er staddur erlendis. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert