Björgunarsveitir kallaðar út

Björgunarsveitir að störfum í óveðri.
Björgunarsveitir að störfum í óveðri. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Það er óvenjulítið af útköllum miðað við hversu slæmt veðrið er,“ sagði Ólöf S. Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, í samtali við mbl.is um níuleytið í kvöld. Björgunarsveitir hafa verið kallaðar út í Hveragerði, á Kjalarnesi, Selfossi, í Vestmannaeyjum og á Suðurnesjunum.

 Í flestum tilvikum hafa björgunarsveitarmenn verið að festa lausar klæðningar og þakplötur á húsum og fjúkandi hluti, auk þess sem aðstoða hefur þurft bíla. Bátar hafa verið festir í höfnum en Landsbjörgu hafa ekki borist fregnir af miklu tjóni, enn sem komið er.

Vindhraði á mæli á Garðskaga á Reykjanesi  sýndi 40 hnúta um áttaleytið í kvöld og allt að 54 hnúta í hviðum, sem samsvarar 100km/klst.

Aðspurð hvort aðstæður séu erfiðar fyrir björgunarmenn í svona veðrum segir Ólöf: „Já, þetta geta alveg verið hættulegar aðstæður því fjúkandi hlutir geta verið stórhættulegir.“

Enn víða óveður á vegum

Búið er að opna Hellisheiði, Þrengslin og Sandskeiði en þar er hálka og óveður samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Óveður er á Reykjanesbraut og á Kjalarnesi. Hálkublettir eru á flestum leiðum á Reykjanesi. Á Suðurlandi er hálka og óveður undir Eyjafjöllum og ekkert ferðaveður.  Hálka og skafrenningur er í kringum Hellu. Víða er snjóþekja, hálka eða jafnvel þæfingsfærð í uppsveitum.

Á Vesturlandi eru hálkublettir og óveður undir Akrafjalli og á Holtavörðuheiði, einnig er óveður undir Hafnafjalli og þar er ekkert ferðaveður. Óveður og þæfingsfærð er á Fróðárheiði. Þungfært og skafrenningur er um Bröttubrekku.  Á öðrum leiðum er hálka, snjóþekja og skafrenningur.

Á  Vestfjörðum er víða hálka, hálkublettir og skafrenningur. Ófært er um Kleifaheiði, þungfært er um Klettsháls og þæfingsfærð er um Hálfdán og Mikladal.

Á  Norðurlandi er hálka eða hálkublettir. Á Norðausturlandi  er víða hálka, snjóþekja og skafrenningur. Ófært er um Hófaskarð.

Á Austurlandi er komið óveður á Vatnsskarð eystra og á Fjarðarheiði. Snjóþekja og skafrenningur er víðast hvar. Á Suðausturlandi er hálka og óveður er í Öræfum.

Upplýsingaskiltið við Mosfellsbæ sýnir vel rokið á Vesturlandsveginum í kvöld.
Upplýsingaskiltið við Mosfellsbæ sýnir vel rokið á Vesturlandsveginum í kvöld.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert