Rúða sprakk í íbúðarhúsi

Björgunarsveitarmenn að störfum, en margar sveitir hafa verið kallaðar út …
Björgunarsveitarmenn að störfum, en margar sveitir hafa verið kallaðar út í kvöld. mbl.is/Jónas

Björgunarsveitarmenn voru kallaðir í kvöld að íbúðarhúsi í Kolbeinsstaðahreppi á Snæfellsnesi, skammt frá Eldborg, þar sem rúða hafði sprungið í óveðrinu. Íbúar urðu fyrir minniháttar meiðslum, en ekki þurfti að kalla til sjúkrabíl að sögn lögreglunnar í Borgarnesi.

Óveðrið sem geisað hefur sunnan- og vestanlands í kvöld gengur norður yfir landið í nótt. Ferðaveður er mjög slæmt og varar lögregla fólk við að vera á ferli, nema að brýna nauðsyn beri til.

Að sögn lögreglunnar í Borgarnesi barst tilkynning um fólksbíl sem sat fastur í skafli á Holtavörðuheiði. Til stóð að senda út björgunarsveitir en af því varð ekki þar sem vöruflutningabíll kom eiganda fólksbílsins til aðstoðar. Skafrenningur og hálka hefur verið á heiðinni, sem og fleiri fjallvegum vestanlands.

Þá voru björgunarsveitir kallaðar út í Sandgerði í kvöld þar sem hestakerra og fleira lauslegt hafði fokið. Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu hafa til þessa engar tilkynningar borist um stórtjón vegna veðursins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert