Neyslan dregst hratt saman

Símreikningar bera með sér að neyslan hefur dregist hratt saman.
Símreikningar bera með sér að neyslan hefur dregist hratt saman.

Október árið 2008, hrunmánuðurinn, var tekjuhæsti októbermánuður í sögu Símans. Símreikningar bera hins vegar með sér að neysla hefur dregist hratt saman frá og með síðasta hausti. Þetta kom fram í máli Kristínar Guðmundsdóttur, forstjóra Skipta, á fundi SA um atvinnumál og stöðu kjaraviðræðna í morgun.

Kristín sagði að hjá Símanum mætti vel sjá af símanotkun hver staðan væri almennt hjá heimilunum í landinum og hvernig neyslumynstrið breyttist. 

Skýringin á því að októbermánuður árið 2008, þegar fjármálakerfið hrundi, hafi verið tekjuhæsti mánuðurinn í sögu Símans, væri eflaust sú að þegar áföll dynja yfir eykst þörf fólks á að eiga samskipti.  Ekki varð heldur samdráttur símanotkunar á næstu mánuðunum eftir hrunið og raunar ekki á árinu 2009. Sama þróun hélt svo áfram frameftir árinu 2010 eða fram yfir mitt seinasta ár, en þá fór neyslan að dragast mjög hratt saman. Samdrátturinn varð viðvarandi, að sögn Kristínar.

Hún sagði að neysla landsmanna hefði greinilega dregist verulega saman á undanförnum mánuðum, símreikningum hefði ekki fækkað en meðalfjárhæð hvers reiknings hefur lækkað.

Kristín velti því fyrir sér hvað gerðist árið 2010 sem skýri þetta. Meðal skýringa væri eflaust sú kaupmáttarrýrnun sem átt hefur sér stað um langt skeið og síðan hefðu skattahækkanir bæst við. Auk þessa hefðu áreiðanlega margir verið búnir að nýta sér þau úrræði vegna skuldavanda, sem þeim stóðu til boða.

Nú væri stóra spurningin sú hvort botninum væri náð. Kristín sagði langmikilvægast að ná aftur stöðugleika í rekstrarumhverfi fyrirtækja hér á landi. Það yrði best gert með samningum um hóflegar launahækkanir til þriggja ára til að ná aftur fyrri styrk. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert