Þriggja bíla árekstur á Fjarðarheiði

Þriggja bíla árekstur varð á Fjarðarheiðinni rétt fyrir klukkan sjö í kvöld. Að sögn lögreglunnar á Egilsstöðum er þar afar hált. Flutningabíll, með tengivagn, komst ekki upp brekkuna, hann sat fastur og lokaði báðum akreinum.

Fólksbíll, sem kom úr gagnstæðri átt, gat stöðvað í tæka tíð. Skömmu síðar kom annar bíll, honum tókst ekki að stöðva og ók aftan á fólkbílinn með þeim afleiðingum að hann kastaðist á flutningabílinn.

Ökumaður, sem kom aðvífandi, stöðvaði bifreið sína og steig út úr henni til að athuga hvort hann gæti orðið til aðstoðar. Ekki vildi betur til en svo að bíllinn hans rann í hálkunni og hafnaði utan vegar.

Engin alvarleg slys urðu á fólki, en bílarnir eru mikið skemmdir. 

Lögreglan á Egilsstöðum vill koma þeirri ábendingu á framfæri að flughált sé á Fjarðarheiðinni og hvetur þá sem leið eiga þar um að sýna ýtrustu aðgát.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert