Skólahald raskast vegna veðurs

Skólahald fellur niður í Klébergsskóla á Kjalarnesi og í grunnskólum Vestmannaeyja í dag vegna óveðurs. Töluvert hvasst er á höfuðborgarsvæðinu en ekkert sem bendir til annars en að skólahald verði að öðru leyti með venjubundnum hætti.

Í tilkynning frá fræðslustjóranum í Reykjavík segir að víða í Reykjavík sé mikilvægt að foreldrar sjálfir fylgist með veðri og veðurspám og hagi sér í samræmi við aðstæður hverju sinni, enda geti veður þróast með ófyrirséðum hætti og aðstæður verið mjög mismunandi eftir svæðum.

„Röskun getur orðið á skólastarfi vegna óveðurs ef starfsfólk á erfitt með að komast í skóla. Við þessar aðstæður eru skólar engu að síður opnaðir og taka á móti nemendum og þeir geta dvalið þar á meðan skipulagt skólahald á að fara fram. Mjög mikilvægt er að foreldrar fylgi börnum til skóla og yfirgefi þau alls ekki fyrr en þau eru í öruggum höndum starfsfólks,“ segir í tilkynningunni.

„Meti foreldrar aðstæður svo að ekki sé óhætt að börn þeirra sæki skóla þá skulu þeir tilkynna skólanum um það og lítur skólinn á slík tilvik sem eðlileg forföll. Hið sama gildir ef foreldrar lenda í vandræðum á leið sinni til skóla og verða frá að hverfa.“

Foreldrum er bent á frekari upplýsingar um viðbragðsáætlun vegna röskunar á skólastarfi á heimasíðu Menntasviðs Reykjavíkurborgar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert