Ávallt verði tvær þyrlur til staðar

Þyrla Landhelgisgslunnar.
Þyrla Landhelgisgslunnar. mbl.is/HAG

Ögmundur Jónasson, innanríkiráðherra, segir, að reynt verði að búa þannig um hnútana að hér verði ávallt tvær þyrlur til staðar en báðar þyrlur Landhelgisgæslunnar eiga að fara í stóra skoðun á þessu ári. 

Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar, vakti athygli á því á Alþingi í dag, að Landhelgisgæslan væri með tvær þyrlur, TF-LIF, sem Gæslan á, og TF-GNA, sem er í leigu frá Noregi. Nú sé LÍF að fara í skoðun í apríl og sú skoðun geti tekið 4-8 vikur. Í september fari GNÁ á samskonar skoðun. Því sé útlit fyrir að aðeins verði ein þyrla til taks í allt að 4 mánuði á árinu.

Ögmundur sagðist hafa átt fund með forstjóra Landhelgisgæslunnar um málið í morgun. Verið væri að skoða möguleika á að leigja eina eða tvær þyrlur. Einnig sé verið að skoða aðra fjármögnunarmöguleika þannig að innlendir aðilar, t.d. lífeyrissjóðir, gætu keypt þyrlu og leigt ríkinu hana á hagstæðari kjörum en Norðmenn gera nú.

„Hagstæðasta úrræðið væri að sjálfsögðu það að við festum sjálf kaup á þyrlu. Vandinn er að við höfum ekki peninga til ráðstöfunar; það er stundum dýrt að vera fátækur," sagði Ögmundur.   

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert