Stefna að því að opna höfnina fyrir helgi

Sanddæluskipið Skandia.
Sanddæluskipið Skandia.

Sanddæluskipið Skandia hóf dælingu í Landeyjarhöfn í morgun. Jón Þórir Frantzson, forstjóri Íslenska gámafélagsins sem gerir skipið út, segist vonast eftir að höfnin verði opnuð fyrir helgi.

Lóðsinn mældi dýpi við Landeyjarhöfn í gær og sýndi mælingin sömu niðurstöðu og áður að ekki þyrfti að dæla miklu til að tækist að opna höfnina. Jón sagðist vera bjartsýnn á að tækist að opna höfnina fyrir helgina. Hann sagði að veðurspá væri ágæt.

Jón sagði að unnið yrði allan sólarhringinn við sanddælingu. Herjólfur hefur siglt til Þorlákshafnar undanfarnar vikur eftir að Landeyjarhöfn lokaðist.

Samningur Siglingamálastofnunar og Íslenska gámafélagsins gerir ráð fyrir að Skandia verði til taks við sanddælingu fram í apríl. Þetta þýðir að dýpi við höfnina á ekki að koma í veg fyrir að Herjólfur geti siglt inn í hana. Veður getur eftir sem áður haft áhrif á siglingar ferjunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert