Umræðu lokið um Icesave

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Steingrímur J. Sigfússon á Alþingi.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Steingrímur J. Sigfússon á Alþingi. Heiðar Kristjánsson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, var síðasti ræðumaður næturinnar í umræðunum um Icesave-frumvarpið, sem lauk nú kl. 2:35 aðfararnótt miðvikudags.

Í ræðu sinni lagði Sigmundur áherslu á að það að auka skuldir þjóðarinnar væri ekki til þess fallið að bæta lánstraustið. Hann benti einnig á að hrakspár í tengslum við fyrri Icesave-samninga hefðu ekki gengið eftir, hér hefði efnahagurinn ekki versnað með því að fella þá samninga eins og spáð hefði verið, heldur þvert á móti batnað.

Sigmundur sagði að með því að samþykkja samningana væri verið að festa í sessi verulega hindrun gegn efnahagslegri uppbyggingu, en hann sagði samningana mundu hafa í för með sér að gjaldeyrishöftunum yrði við haldið.

Umræðurnar í kvöld og nótt einkenndust af harðri gagnrýni á frumvarpið, einkum frá framsóknarmönnum, en nánast enginn var til varnar af hálfu stuðningsmanna málsins. Farið var ýtarlega yfir efnisatriði málsins og þau gagnrýnd en einnig bar mjög á gagnrýni á málsmeðferðina hjá ríkisstjórninni, allt frá undirbúningi fyrstu Icesave-samninganna til næturfundarins nú, sem þeir þingmenn sem töluðu töldu mjög ámælisverðan.

Í umræðum um málsmeðferðina ræddi Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, meðal annars um þörf á því að Icesave-málið yrði rannsakað í heild sinni frá hruni, en rannsóknarnefnd Alþingis hefði rannsakað það fram að þeim tíma. Hann nefndi margt sem kallaði á slíka rannsókn og lýsti miklum efasemdum um að ráðherrar hefðu gætt hagsmuna Íslands og unnið að málinu með eðlilegum hætti. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, tók undir með Sigurði Kára um rannsókn og lagði áherslu á að rannsóknin mætti ekki aðeins beinast að núverandi ríkisstjórn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert